
Zlatko Dalic var himinlifandi að leikslokum eftir að Króatía lagði Marokkó að velli í bronsleiknum á HM í Katar fyrr í dag.
Króatía vann leikinn 2-1 og hlaut bronsverðlaun fjórum árum eftir að hafa komið heiminum á óvart og nælt sér í silfurverðlaun í Rússlandi.
„Það hefði verið algjör hörmung að tapa þessari viðureign. Við unnum bronspeninginn og í honum er lag af gulli - það er eins og að hafa unnið gullverðlaunin," sagði Dalic.
„Þetta er endirinn á löngu og erfiðu en skemmtilegu ferðalagi sem hefur skilað miklu stolti til þjóðarinnar. Leikmennirnir gáfu sig alla í verkefnið og uppskera eins og þeir sá.
„Þetta er síðasta heimsmeistaramótið fyrir suma leikmenn sökum aldurs. Við erum með efnilega leikmenn í hópnum og ég tel framtíð landsliðsins vera afar bjarta. Einhverjir telja þetta vera endirinn á velgengni Króatíu en ég er alls ekki sammála því."
Það eru aðeins fjórar milljónir íbúa í Króatíu og náði fótboltalandsliðið einnig í bronsverðlaun á HM 1998 í Frakklandi.