Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 17. desember 2022 17:00
Brynjar Ingi Erluson
HM: Króatía tók bronsið í stórskemmtilegum leik
Mislav Orsic var hetja Króata
Mislav Orsic var hetja Króata
Mynd: EPA
Dari jafnaði metin í fyrri hálfleiknum
Dari jafnaði metin í fyrri hálfleiknum
Mynd: EPA
Það komst mikill hiti í leikinn á síðustu mínútunum
Það komst mikill hiti í leikinn á síðustu mínútunum
Mynd: EPA
Króatía 2 - 1 Marokkó
1-0 Josko Gvardiol ('7 )
1-1 Achraf Dari ('9 )
2-1 Mislav Orsic ('42 )

Króatía tryggði sér bronsverðlaunin á heimsmeistaramótinu í Katar í dag með því að leggja Marokkó að velli, 2-1, á Khalifa-leikvanginum í Doha. Liðin blésu til sóknar í dag og er alveg óhætt að segja að leikurinn hafi verið bráðskemmtilegur.

Þetta byrjaði með látum. Josko Gvardiol stangaði boltann í netið eftir aukaspyrnu Luka Modric. Boltonn rataði á Ivan Perisic, sem kom honum í teiginn á Gvardiol sem skoraði með þrumuskalla og staðan 1-0.

Það tók Marokkó ekki langan tíma að jafna metin. Hakim Ziyech átti aukaspyrnu hægra megin á vellinum sem Lovro Majer skallaði aftur fyrir sig og á Achraf Dari sem jafnaði metin með skalla af stuttu færi.

Yassine Bounou, markvörður Marokkó, þurfti að taka á stóra sínum á 24. mínútu. Fyrst varði hann skot frá Luka Modric áður en Perisic mætti til að pota boltanum inn en Bounou sá einnig við honum.

Undir lok fyrri hálfleiksins kom annað mark Króata og það reyndist sigurmarkið. Marokkó missti boltann klaufalega frá sér og náðu Króatar góðu spili við teiginn. Boltinn var lagður vinstra megin í teiginn á Mislav Orsic sem tók hann í fyrsta með laglegu innanfótarskoti í stöng og inn. Eitt af mörkum mótsins.

Orsic var nálægt því að bæta við öðru marki sínu í upphafi síðari hálfleiks en Jawad El-Yamiq komst fyrir skotið og fór það af honum og í hliðarnetið.

Þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum vildu bæði lið frá vítaspyrnu. Achraf Hakimi féll við vítateiginn eftir að Bruno Petkovic ýtti við honum, en ekkert dæmt. Þá átti Gvardiol sprett inn í teiginn hinum megin á vellinum og fór þá Sofiyane Amrabat aftan í hann. VAR skoðaði atvikið en ekkert dæmt, en snertingin virtist þó fremur augljós.

Mateo Kovacic átti fínasta færi undir lok leiks en skaut boltanum framhjá.

Króatía hafði sigur gegn Marokkó, 2-1. Það er því Króatía sem tekur 3. sætið á HM í ár. Ágætis árangur á síðustu tveimur stórmótum. Liðið komst í úrslit fyrir fjórum árum, en tapaði fyrir Frökkum og núna er það bronsið. Marokkó-liðið getur þá verið stolt af frammistöðu sinni. Fyrsta Afríkuþjóðin sem kemst í undanúrslit og nær 4. sætinu. Magnað afrek í alla staði.
Athugasemdir
banner
banner