Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 19. júlí 2018 15:30
Ívan Guðjón Baldursson
Seaman finnur til með Karius - Lenti í svipuðu gegn Ronaldinho
Mynd: Getty Images
David Seaman settist niður með fréttamanni frá Paddy Power og ræddi um lífið og tilveruna.

Seaman var aðalmarkvörður Arsenal og enska landsliðsins í áraraðir og er enn í dag mikill stuðningsmaður Arsenal.

Hann fylgist enn með fótboltaheiminum og fannst leiðinlegt að sjá Loris Karius, markvörð Liverpool, gera slæm mistök í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Seaman er með reynslu á því sviði eftir að Brasilía sló England úr leik í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins 2002. Ronaldinho gerði sigurmark Brasilíu beint úr aukaspyrnu langt utan af velli eftir að Seaman misreiknaði sig hrapalega á milli stanganna.

„Það tók mig smá tíma að komast yfir það þegar Ronaldinho skoraði á mig. Ég gat varla hugsað um annað, fólk og fjölmiðlar voru alltaf að minna mig á þessi mistök," sagði Seaman.

„Það er mikilvægt fyrir Karius að koma hausnum á réttan stað. Hann þarf að vera sterkur andlega og samþykkja að það verður gert grín að honum fyrir hver einustu mistök sem hann gerir héðan í frá."

Seaman tjáði sig einnig um brottför Arsene Wenger og Jack Wilshere frá sínu uppáhaldsfélagi. Hann er vonsvikinn með hversu langt félagið hefur dregist afturúr en telur að Wenger hafi valið hárréttan tíma til að leggja stjórnartauminn frá sér.

Seaman er sérstaklega vonsvikinn með að Wilshere sé farinn frá félaginu. Hann fór á frjálsri sölu til West Ham fyrr í mánuðinum.

„Mér finnst alltaf leiðinlegt að sjá góða leikmenn yfirgefa Arsenal. Það er einstaklega vont fyrir hjartað að sjá Wilshere fara burt. Hann var Arsenal.

„Allir tala um meiðslin hans en af hverju var ekki hægt að finna einhverja lausn þar sem hann fengi greitt fyrir hvern spilaðan leik?"

Athugasemdir
banner