Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 19. júlí 2021 14:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hendi Halls kom illa út úr samstuði - „Örugglega bara svona harður"
Hallur á sjúkrahúsinu.
Hallur á sjúkrahúsinu.
Mynd: Twitter
Hallur í leik með ÍA.
Hallur í leik með ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hallur Flosason fór meiddur af velli þegar ÍA vann óvæntan sigur gegn Íslandsmeisturum Vals síðasta laugardag.

„Hallur liggur eftir og þarf á aðhlynningu að halda. Hann lenti í samstuði við Orra Sigurð," skrifaði Sæbjörn Þór Steinke í beinni textalýsingu frá leiknum.

„Ég lenti í samstuði við hann Orra. Höndin á mér var á milli. Ég veit ekki hvernig það gerðist - hann er örugglega bara svona harður - en handabakið á mér fór í rugl. Tvö bein fóru úr lið í handabakinu og annað brotnaði," segir Hallur í samtali við Fótbolta.net.

„Ég þurfti að fara í aðgerð í gær til að hnjaska þessu saman. Ég fékk tvo pinna í handapinna í handabakið og eitthvað svoleiðis. Þetta var mjög vont."

Þarf að heyra betur í læknunum
Ekki er vitað nákvæmlega hversu lengi Hallur verði frá. Hann á eftir að ráðfæra sig við lækna.

„Ég þarf að fá að heyra aðeins betur frá læknunum hver næstu skref eru, hvort ég nái að spila með spelku - hvort það sé möguleiki. Það verður bara að fá að koma í ljós," segir Hallur en hann er brattur eftir aðgerðina.

„Ég finn ekki mikið til núna, ég er bara á verkjalyfjum. Ég veit ekki hvernig þetta verður þegar deyfingin fer úr en annars er ég bara mjög brattur."

Horfði á leikinn á sjúkrahúsinu
Hallur birti mynd af sér á Twitter eftir sigur Skagamanna þar sem hann sat á sjúkrahúsinu. Tókst honum að horfa á leikinn?

„Ég fylgdist með. Ég var mjög panikkaður. Ég var svo að vona að þeir myndu halda út og var ekkert smá feginn að við náðum að sigla þessu. Ég náði útsendingunni. Það fór um mig þegar Patrick Pedersen fékk þetta færi í lokin."

„Það var geggjað að sjá þetta. Á milli þess þegar læknarnir voru að reyna að tosa mig í lið, þá var ég að fylgjast með þessu. Þeir náðu ekki að tosa mig í lið á sjúkrahúsinu. Þeir náðu að rétta þetta af í aðgerðinni í gær, þeir gátu ekki gert þetta öðruvísi... ég er búinn að vera á verkjalyfjaður síðan ég lenti í þessu samstuði."

Vonandi vendipunktur
Skagamenn eru áfram á botni Pepsi Max-deildarinnar en þessi sigur hleypir lífi í þeirra baráttu um að halda sér uppi.

„Tímabilið hefur ekki verið frábært hingað til en við strákarnir erum allir sammála um að það býr miklu meira í liðinu en við höfum sýnt. Við vonumst til að þessi leikur á móti Val sé vendipunktur hjá okkur, og sýni okkur við getum unnið öll lið. Við þurfum ekki að vera hræddir við neitt."

„Í þessum leik á móti Val voru allir samstíga í leiknum og að berjast fyrir hvorn annan. Það er eitthvað sem manni finnst hafa vantað upp á síðkastið. Leikplanið hjá Jóa var geggjað og það gekk allt upp hjá okkur. Ég vona að þetta hafi jákvæð áhrif á framhaldið," segir Hallur sem snýr vonandi aftur á fótboltavöllinn fyrr en síðar.
Athugasemdir
banner
banner
banner