Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 20. apríl 2019 14:53
Ívan Guðjón Baldursson
Pochettino: Allt mannkynið sá að þetta var vítaspyrna
Mynd: Getty Images
Tottenham tapaði 1-0 fyrir Manchester City í enska boltanum í dag en Mauricio Pochettino sagðist ekki vera svekktur með tapið að leikslokum.

Hann hrósaði Ederson fyrir góða frammistöðu á milli stanga Man City sem endurheimti toppsæti úrvalsdeildarinnar með sigrinum. Tottenham er áfram í þriðja sæti, en getur dottið niður í fjórða á páskadag.

„Ég er ekki svekktur með úrslitin, svona er fótboltinn. Þetta var jafn leikur og við áttum meira skilið, að minnsta kosti jafntefli. Við fengum betri færi en þeir en Ederson var frábær í markinu. Hann var raunverulegi maður leiksins," sagði Pochettino, en Bernardo Silva fékk verðlaun að leikslokum fyrir að vera besti maður vallarins.

„Ég er stoltur af strákunum. Þó þeir hafi átt skilið að skora þá gerðist það ekki. Nú verðum við að einbeita okkur að næsta verkefni, síðustu vikurnar verða afar erfiðar því við erum að berjast við heljarinnar lið á tveimur vígstöðvum."

Dele Alli og fleiri leikmenn Tottenham vildu fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í hendi Kyle Walker innan vítateigs. Dómarinn var vel staðsettur en flautaði ekki.

„Ég reyni að vera sanngjarn þegar ég tjái mig. Dómarinn var í góðri stöðu en ég sætti mig við hans ákvörðun. Mér fannst þetta vera augljós hendi. Allt mannkynið sá boltann fara í höndina á honum."

Pochettino var að lokum spurður út í allar breytingarnar sem hann gerði á liðinu sínu. Hann skipti fimm mönnum út á meðan Pep Guardiola skipti þremur út. Kevin De Bruyne, sem byrjaði báða leikina, þurfti að fara meiddur af velli í fyrri hálfleik í dag.

„Það getur verið áhættusamt að nota þreytta leikmenn, þið sjáið gott dæmi í De Bruyne. Við kusum að nota ferskari fótleggi og mér fannst það heppnast þokkalega."
Athugasemdir
banner
banner