Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 20. október 2022 07:40
Ívan Guðjón Baldursson
Milan er í viðræðum við Leao en ekki Ziyech
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Ítalíumeistarar AC Milan eru komnir í viðræður við umboðsteymi Rafael Leao um nýjan samning.


Portúgalski kantmaðurinn rennur út á samningi sumarið 2024 og er það forgangsatriði hjá Milan að semja við hann.

Leao var valinn besti leikmaður Serie A á síðustu leiktíð og hefur haldið áfram að hrífa með gæðum sínum. Manchester United hefur sýnt Leao áhuga á tímabilinu en Portúgalinn er kominn með fjögur mörk og fjórar stoðsendingar í níu deildarleikjum.

Stjórn Milan ræddi við umboðsmenn Leao í gær og munu fundarhöld halda áfram næstu vikurnar.

Þá er marokkóski kantmaðurinn Hakim Ziyech ekki í viðræðum við Milan þessa dagana þrátt fyrir orðróm sem segir svo vera. Ítalíumeistararnir reyndu að fá hann lánaðan frá Chelsea í sumar en sú tilraun bar ekki árangur.

Ziyech var ekki ofarlega í goggunarröðinni hjá Thomas Tuchel og virðist Graham Potter heldur ekki vera sérlega hrifinn af honum. Ziyech hefur aðeins fengið að spila í um 20 mínútur frá því að Potter tók við.

Ziyech var í viðræðum við Milan og Ajax í sumar og er talið að bæði félög séu áhugasöm um að fá hann til sín í janúar.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner