Íslenska landsliðskonan Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Juventus eru úr leik í Meistaradeild kvenna eftir að hafa gert markalaust jafntefli við Lyon í riðlakeppninni í kvöld.
Juventus þurfti á sigri að halda gegn Lyon til að komast áfram í 8-liða úrslit.
Það voru færi á báða bóga. Arianna Caruso átti gott færi fyrir Juventus en markvörður Lyon varði frá henni og þá átti Pauline Peyraud-Magnin góða vörslu hinum megin á vellinum.
Juventus tókst aldrei að ná í sigurmarkið og eru það því ríkjandi meistarar Lyon sem fara áfram. Sara Björk Gunnarsdóttir var ekki í leikmannahópi Juventus í dag.
Arsenal slátraði Zürich, 9-1, í Sviss. Frida Leonhardsen-Maanum skoraði þrennu fyrir Arsenal. Stina Blackstenius og Caitlin Foord skoruðu báðar tvö mörk. Kim Little gerði eitt mark úr vítaspyrnu og þá komst Mana Iwabuchi einnig á blað.
Arsenal vann C-riðil með 13 stig á meðan Lyon hafnaði í öðru sæti með 11 stig. Juventus var í þriðja sæti með 8 stig og Zürich án stiga í neðsta sæti.
Athugasemdir