Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 25. maí 2021 17:15
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Hratt upp á stjörnuhimininn og mjög bratt niður aftur
Lengjudeildin
Daði Freyr Arnarsson.
Daði Freyr Arnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daði Freyr Arnarsson hefur ekki byrjað vel í markinu hjá Þór Akureyri í Lengjudeildinni í sumar.

Daði Freyr er 22 ára markvörður sem lék fimmtán leiki með FH fyrir tveimur sumrum en tapaði svo baráttunni um byrjunarliðssæti við Gunnar Nielsen.

Hann var lánaður í Þór fyrr í þessum mánuði og hefur spilað þrjá leiki með liðinu í Lengjudeildinni. Í þessum þremur leikjum hefur hann fengið á sig níu mörk og var hann settur í "vondan dag" eftir tap gegn Fram síðasta föstudag.

„Daði Freyr Arnarsson kemur á láni til Þórs rétt fyrir tímabilið úr toppliði FH í Pepsi Max-deildinni. Það er ekki langt síðan hann var orðinn aðalmarkvörður FH. Þegar markvörður að þessu kaliberi kemur í Lengjudeildina þá á hann að koma til að vinna leiki fyrir liðið. Það sem af er mótinu hefur hann fengið á sig níu mörk í þremur leikjum. Hann þarf að stíga upp og verða sigurvegari fyrir Þór," skrifaði Hafliði Breiðfjörð í skýrslu sinni eftir 4-1 tap Þórs gegn Fram.

Rætt var um Daða í útvarpsþættinum á laugardag.

„Markið sem hann fékk á sig gegn Grindavík í síðustu umferð (2. umferð) á heimavelli var hræðilegt, hann átti það skuldlaust. Sem betur fer pakkaði liðið Grindavík saman, en markið var mjög slakt sem hann fékk á sig," sagði Tómas Þór Þórðarson.

„Það á að gera kröfu á að hann geri miklu betur en þetta," sagði Elvar Geir Magnússon og tók Tómas undir það.

„Ætli hann þurfi ekki að stilla hausinn strákurinn? Það getur ekki verið þægilegt; allt í einu færðu aðalmarkvarðarstöðuna á undan landsliðsmarkverði Færeyja hjá einu stærsta félagi landsins, svo ertu bara allt í einu ekki með hana, þú ert bara kominn á bekkinn, svo kemur nýr þjálfari og þú ert lánaður í B-deild. Hann skaust hratt upp á stjörnuhimininn og er búinn að fara mjög bratt niður aftur. Ég held að það sé erfitt fyrir ungan mann."

Hægt er að hlusta á alla umræðuna hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Íslenskt boltahlaðborð með Gulla Jóns
Athugasemdir
banner
banner
banner