Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 29. ágúst 2021 20:48
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stefán og Rúnar með stórleiki - Glódís og Guðný í stórveldum
Stefán Teitur Þórðarson.
Stefán Teitur Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrsta tapið hjá Lyngby.
Fyrsta tapið hjá Lyngby.
Mynd: Lyngby
Rúnar Már Sigurjónsson.
Rúnar Már Sigurjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís fer vel af stað með Bayern.
Glódís fer vel af stað með Bayern.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ari hefur komið sterkur inn í lið Stromsgödset.
Ari hefur komið sterkur inn í lið Stromsgödset.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðný Árnadóttir.
Guðný Árnadóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Miðjumaðurinn Stefán Teitur Þórðarson átti stórleik í dönsku úrvalsdeildinni í dag þegar Silkeborg vann sigur gegn Randers á heimavelli.

Stefán Teitur gerði sér lítið fyrir og lagði upp bæði mörk Silkeborg í leiknum.

Silkeborg hefur farið nokkuð vel af stað á tímabilinu og er liðið núna í sjötta sæti með tíu stig.

Það er ekki hægt að segja að AGF hafi farið tímabilið vel af stað í Danmörku. Liðið náði í sitt þriðja stig á tímabilinu er liðið gerði jafntefli við OB á heimavelli, 1-1. Jón Dagur Þorsteinsson byrjaði fyrir AGF og spilaði 70 mínútur. Hjá OB, sem er í áttunda sæti, byrjaði Aron Elís Þrándarson og spilaði hann 78 mínútur.

Andri Fannar Baldursson þreytti frumraun sína með FC Kaupmannahöfn. Hann kom inn á sem varamaður eftir 70 mínútur í 4-0 sigri á Vejle.

Kristófer Ingi Kristinsson byrjaði hjá SönderjyskE í 2-2 jafntefli gegn Viborg. SönderjyskE er í tíunda sæti deildarinnar.

Elías Rafn Ólafsson var varamarkvörður Midtjylland gegn Bröndby, í 2-0 tapi. Mikael Neville Anderson var ekki í hóp hjá Midtjylland.

Fyrsta tap Lyngby
Í dönsku 1. deildinni tapaði Lyngby sínum fyrsta leik á tímabilinu, gegn Horsens í Íslendingaslag. Sævar Atli Magnússon kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik hjá Lyngby, en Aron Sigurðarson var ónotaður varamaður hjá Horsens. Ágúst Hlynsson var ekki í hóp hjá Horsens.

Leikurinn endaði með 2-1 sigri Horsens og er þetta fyrsta tapið hjá lærisveinum Freys Alexanderssonar í Lyngby á tímabilinu. Lyngby er í þriðja sæti og Horsens í fimmta sæti.

Rúnar Már skoraði
Miðjumaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson var á skotskónum fyrir Cluj í rúmensku úrvalsdeildinni í kvöld. Hann lagði upp fyrsta markið og skoraði annað mark í 4-1 sigri gegn Steaua Búkarest. Cluj er á toppnum í Rúmeníu með fullt hús stiga eftir sjö leiki.

Ekki er útlit fyrir að Rúnar verði í landsliðshópnum fyrir komandi landsleiki, í kjölfarið á mikilvægri umræðu sem hefur átt sér stað síðustu daga.

Draumabyrjun hjá Glódísi
Glódís Perla Viggósdóttir þreytti frumraun sína með þýska stórveldinu Bayern München og hún fékk sannkallaða draumabyrjun.

Bayern vann 8-0 sigur á Werder Bremen í fyrsta leik Glódísar. Miðvörðurinn kom inn á eftir rúmlega klukkutíma leik. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var ekki með Bayern í dag.

Þá kom Alexandra Jóhannsdóttir inn af bekknum í 2-1 sigri Eintracht Frankfurt gegn Sand í fyrstu umferð þýsku úrvalsdeildarinnar.

Ari, Ísak og Jón fara með sigur á bakinu í landsleikina
Íslendingalið Norrköping vann góðan 3-0 sigur á Östersund í sænsku úrvalsdeildinni. Ari Freyr Skúlason og Ísak Bergmann Jóhannesson spiluðu báðir allan tímann fyrir Norrköping sem er í sjötta sæti deildarinnar.

Bæði Ari Freyr og Ísak Bergmann eru í íslenska landsliðshópnum fyrir komandi landsleiki.

Sóknarmaðurinn Kolbeinn Sigþórsson byrjaði í tapi hjá Gautaborg gegn Häcken. Kolbeinn er væntanlega ekki á leið til landsins í landsleikina. Hvorki Óskar Sverrisson né Valgeir Lunddal voru með Häcken í leiknum í dag.

Jón Guðni Fjóluson lék í sigri Hammarby á Malmö og Sveinn Aron Guðjohnsen fékk rúmlega tíu mínútur í sigri Elfsborg á Kalmar. Aron Bjarnason var ekki með Sirius í sigri á Djurgården.

Í úrvalsdeild kvenna í Svíþjóð spilaði Hlín Eiríksson 76 mínútur í tapi gegn Eskilstuna, 3-0. Piteå er í tíunda sæti deildarinnar.

Alfons á toppnum í Noregi
Í Noregi skellti Bodö/Glimt, liðið sem Alfons Sampsted spilar með, sér á toppinn. Bodö vann 2-3 sigur gegn Tromsö og spilaði Alfons allan leikinn að venju. Hjá Tromsö var Adam Örn Arnarson ekki í hóp.

Bodö kemst á toppinn þar sem Molde, liðið sem er núna í öðru sæti, tapaði á sama tíma. Molde tapaði gegn Íslendingaliði Kristiansund, 2-0. Brynjólfur Willumsson kom inn á í uppbótartíma hjá Kristiansund, sem er í fjórða sæti deildarinnar.

Ari Leifsson hefur komið mjög sterkur inn í vörn Stromsgödset og hann spilaði í dag, í 0-1 sigri gegn Odd. Valdimar Þór Ingimundarson var ónotaður varamaður hjá Stromsgödset, sem er í níunda sætinu.

Viðar Ari Jónsson spilaði 82 mínútur í 5-0 tapi gegn Sarpsborg, og þá hafði Viking betur gegn Rosengborg í Íslendingaslag, 2-1. Hólmar Örn Eyjólfsson lék í vörn Rosenborg og Samúel Kári Friðjónsson kom inn á í hálfleik hjá Viking.

Viðar Örn Kjartansson spilaði 75 mínútur í sigri á Stabæk, 3-1. Viðar er að stíga upp úr meiðslum.

Albert lék í sigri á gömlu félögunum
Albert Guðmundsson spilaði í sigri AC Alkmaar gegn sínum gömlu félögum í Heerenveen. Þegar Albert fór fyrst til Hollands, þá samdi hann við Heerenveen.

Albert, sem er í íslenska landsliðshópnum, spilaði um hálftíma í leiknum sem endaði 1-3. AZ er með þrjú stig eftir tvo leiki í Hollandi.

Guðný kom inn á í sigri AC Milan
Miðvörðurinn Guðný Árnadóttir kom inn á sem varamaður í 4-0 sigri AC Milan. Guðný lék frá 72. mínútu í þessum flotta sigri gegn Verona í fyrstu umferð ítölsku úrvalsdeildarinnar.

Guðný er á sínu fyrsta tímabili hjá ítalska stórveldinu eftir að hafa verið á láni hjá Napoli á síðustu leiktíð, liði sem er einnig í ítölsku úrvalsdeildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner