Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 29. desember 2019 20:46
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Chris Wilder: Talaði við dómarann og hann var hreinskilinn
Chris Wilder.
Chris Wilder.
Mynd: Getty Images
Chris Wilder, stjóri Sheffield United, var svekktur en samt stoltur eftir 2-0 tap gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Sheffield United voru ósáttir með fyrra mark City í leiknum þar sem Chris Kavanagh, dómari leiksins, þvældist fyrir þeim í aðdragandanum. Markið var skoðað í VAR, en það var metið sem svo að þáttaka hans í markinu hefði ekki verið nægileg til að dæma það af.

Þá var mark dæmt af Sheffield í fyrri hálfleiknum vegna rangstöðu á Lys Mousset. Það var mjög tæpt.

„Það hafa verið átta eða níu mörk dæmd af með VAR um helgina. Þetta er ekki að hjálpa leiknum, sérstaklega ekki þegar það er svona lítill munur," sagði Wilder.

„En ég ætla að leyfa öðrum að tala um þetta. Ég hef sagt of mikið um þetta."

„Mér fannst leikmennirnir halda sig vel við planið, spila vel án bolta og ógna á hinum enda vallarins. Þegar þú heimsækir Manchester City þá þarftu að nýta færin sem þú færð og því miður gerðum við það ekki."

Wilder segist hafa rætt við Kavanagh um fyrra mark City.

„Ég er búinn að tala við dómarann og hann var hreinskilinn. Við gerum öll mistök og hann gerði það í þetta skiptið. Við tölum um nýja reglu þar sem dómarinn þarf að flauta og stoppa leikinn ef hann er fyrir. Hann er fyrir og hindrar okkur þarna."

„Ef hann tekur skynsamlega ákvörðun þá er ég viss um að enginn á vellinum hefði sagt neitt," sagði Wilder.

„Ég er stoltur af frammistöðunni gegn liði í heimsklassa. Kannski á öðrum degi hefðum við getað náð í góð úrslit."
Athugasemdir
banner