Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mið 31. ágúst 2022 21:11
Brynjar Ingi Erluson
England: Carvalho skoraði flautumark í sigri á Newcastle - Jafnt í Lundúnaslag
Jürgen Klopp tók extra knús á Fabio Carvalho
Jürgen Klopp tók extra knús á Fabio Carvalho
Mynd: EPA
West Ham og Tottenham skildu jöfn
West Ham og Tottenham skildu jöfn
Mynd: EPA
Mohamed Salah átti þátt í báðum mörkum Liverpool
Mohamed Salah átti þátt í báðum mörkum Liverpool
Mynd: EPA
Portúgalski sóknartengiliðurinn Fabio Carvalho er nýja kult-hetja Liverpool-manna og gæti verið fýsilegur kostur til að taka við bandinu af Divock Origi en hann skoraði sigurmarkið seint í uppbótartíma í 2-1 sigri á Newcastle United í 5. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Anfield í kvöld.

West Ham og Tottenham gerðu 1-1 jafntefli á London-leikvanginum í kvöld.

Leikurinn var gríðarleg skemmtun fyrir áhorfendur þar sem það voru færi á báða bóga. Hugo Lloris, markvörður Tottenham, þurfti að vera vel á verði og átti nokkrar fínar vörslur.

Á 12. mínútu virtist Tottenham hafa fengið vítaspyrnu. Ivan Perisic átti fyrirgjöf inn í teiginn á Harry Kane sem skallaði í átt að marki en þar handlék Aaron Cresswell boltann. Atvikið var skoðað í VAR og ákvað dómarinn að taka ákvörðun sína til baka þar sem boltinn fór fyrst í höfuð Cresswell.

Declan Rice átti gott skot stuttu síðar sem Lloris varði vel en Rice var að eiga frábæran leik á miðsvæðinu hjá West Ham. Á 22. mínútu átti Jamaíkamaðurinn Michail Antonio skot í stöng, en tólf mínútum síðar lenti West Ham undir.

Dejan Kulusevski fann Kane í teignum sem ætlaði að koma boltanum fyrir markið en boltinn fór af Thilo Kehrer og í netið. Óheppilegt fyrir þýska varnarmanninn.

West Ham jafnaði leikinn á 55. mínútu. Antonio fékk boltann kom honum fyrir á Tomas Soucek sem tók eina snertingu áður en hann þrumaði boltanum í netið.

Bæði lið sköpuðu sér færi til að ná inn marki en það kom aldrei og lokatölur 1-1 á London-leikvanginum. Tottenham í þriðja sæti með 11 stig en West Ham í 14. sæti með 4 stig.

Carvalho tekur við af Origi

Liverpool vann Newcastle United, 2-1, á Anfield. Þetta var annar sigur Liverpool á tímabilinu.

Luis Díaz kom sér í gríðarlega gott færi til að koma heimamönnum yfir á 34. mínútu. Roberto Firmino átti sendingu á Díaz sem kom sér framhjá Nick Pope en hann missti jafnvægið og skaut yfir markið.

Sænski framherjinn Alexander Isak gekk í raðir Newcastle á dögunum frá Real Sociedad og var að spila sinn fyrsta leik. Hann var ekki lengi að stimpla sig inn og kom Newcastle yfir á 38. mínútu er hann skoraði með góðu skoti eftir sendingu frá Longstaff.

Isak kom boltanum aftur í netið á 55. mínútu en var dæmdur rangstæður. Firmino jafnaði leikinn stuttu síðar eftir sendingu frá Mohamed Salah. Þetta var annað skot Liverpool á markið í leiknum.

Liðin sköpuðu sér ekkert af viti eftir þetta. Fimm mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og ekki útlit fyrir að það kæmi annað mark í leikinn. Nick Pope, markvörður Newcastle, meiddist og virtist leikurinn vera að fjara út.

Liverpool fékk hornspyrnu. Boltinn kom inn í teiginn og náði Mohamed Salah skalla, sem var þó lítill kraftur í, en boltinn datt fyrir lappirnar á varamanninum Fabio Carvalho sem þrumaði boltanum í slá og inn og ætlaði allt að tryllast á Anfield.

Divock Origi sá alltaf um þessi mikilvægu mörk í uppbótartíma fyrir Liverpool en hann fór til Milan í sumar. Spurning hvort Carvalho sé sá sem tekur við þessu hlutverki?

Þetta gefur liðinu mikið sem er nú í 5. sæti með 8 stig en Newcastle í 11. sæti með 6 stig.

Úrslit og markaskorarar:

West Ham 1 - 1 Tottenham
0-1 Thilo Kehrer ('34 , sjálfsmark)
1-1 Tomas Soucek ('55 )

Liverpool 2 - 1 Newcastle
0-1 Alexander Isak ('38 )
1-1 Roberto Firmino ('61 )
2-1 Fabio Carvalho ('90 )
Athugasemdir
banner
banner