Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 01. september 2021 16:20
Elvar Geir Magnússon
Rúnar Páll: Gaman að takast á við erfiðar áskoranir
Hrafnkell Helgi Helgason formaður meistaraflokksráðs Fylkis, Rúnar Páll Sigmundsson og Tómas Ingi Tómasson yfirmaður fótboltamála hjá Fylki.
Hrafnkell Helgi Helgason formaður meistaraflokksráðs Fylkis, Rúnar Páll Sigmundsson og Tómas Ingi Tómasson yfirmaður fótboltamála hjá Fylki.
Mynd: Fylkir
Rúnar segir að verkefnið verði krefjandi og bráðskemmtilegt.
Rúnar segir að verkefnið verði krefjandi og bráðskemmtilegt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Páll Sigmundsson, fyrrum þjálfari Stjörnunnar, var í dag ráðinn þjálfari Fylkis og mun stýra liðinu í þremur síðustu umferðum Pepsi Max-deildarinnar. Hann stýrir sinni fyrstu æfingu í kvöld.

Það var létt yfir Rúnari þegar Fótbolti.net heyrði í honum hljóðið og greinilegt að hann er spenntur fyrir því erfiða verkefni sem framundan er. Fylkismenn fóru í fallsæti eftir 0-7 tap gegn Breiðabliki og eiga erfiða leiki eftir.

Fylkir á eftir að spila við KA, ÍA og Val og er einu stigi á eftir HK sem er í sætinu fyrir ofan, því tíunda.

„Þetta verður krefjandi og bráðskemmtilegt verkefni. Ég hef mikla trú á þessu, annars hefði ég ekki tekið þetta að mér. Við þurfum að eiga frábæran mánuð," segir Rúnar.

„Þetta er spennandi, ég er búinn að fylgjast að með Fylki síðan ég spilaði sjálfur fótbolta. Fylkir er félag sem er líkt Stjörnunni að mörgu leyti, þetta er fjölskylduklúbbur og það verður skemmtilegt að kynnast nýju félagi. Ég hlakka til."

Eins og áður segir eru erfiðir leikir eftir í lokaumferðunum.

„Það þurfa allir að eiga sinn besta mánuð, það er eins og það er. Við þjálfararnir og leikmennirnir. Það þurfa allir að vera gíraðir í þessa áskorun, sem er mikil. Fylkir er gott lið með fullt af flottum ungum strákum og við þurfum að púsla þessu vel saman. Það er gaman að takast á við erfiðar áskoranir."

Rúnar semur út tímabilið, er hann opinn fyrir því að vera þarna áfram?

„Við tökum stöðuna eftir tímabil. Við byrjum á þessu verkefni, sem er verðugt. Svo sjáum við bara til hvernig þróast," segir Rúnar. Ekki er ljóst hver verður aðstoðarmaður hans.

„Að öðru leyti er teymið í kringum liðið gott og verður áfram. Svo kemur bara í ljós hver verður aðstoðarþjálfari."

Nú er landsleikjahlé í Pepsi-deildinni en þann 11. september stýrir Rúnar Páll sínum fyrsta leik með Fylki, gegn KA á Akureyri.

„Ég fæ nokkra daga til að undirbúa liðið. Við erum að fara að mæta öflugum mótherjum, við þurfum að æfa vel og fara yfir taktíska hluti. Við þurfum að hugsa fram á við, það eru níu stig í pottinum og við þurfum að reyna að sækja þau."

Þarf ekki að rífa upp sjálfstraustið í liðinu?

„Það segir sig sjálft. En ég hef ekki hitt leikmennina og get ekki dæmt um það fyrr en ég hitti þá," segir Rúnar Páll Sigmundsson.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner