Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 03. maí 2022 20:54
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Liverpool í úrslit eftir ótrúlega endurkomu - Díaz gerði gæfumuninn
Luis Díaz fagnar öðru marki Liverpool
Luis Díaz fagnar öðru marki Liverpool
Mynd: EPA
Fabinho skoraði fyrsta mark Liverpool í leiknum
Fabinho skoraði fyrsta mark Liverpool í leiknum
Mynd: EPA
Hetjuleg barátta Villarreal dugði ekki til
Hetjuleg barátta Villarreal dugði ekki til
Mynd: EPA
Ibrahima Konaté fagnar
Ibrahima Konaté fagnar
Mynd: EPA
Villarreal 2 - 3 Liverpool (Samanlagt 2-5)
1-0 Boulaye Dia ('3 )
2-0 Francis Coquelin ('41 )
2-1 Fabinho ('62 )
2-2 Luis Diaz ('67 )
2-3 Sadio Mane ('74 )
Rautt spjald: Etienne Capoue, Villarreal ('85)

Liverpool er komið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa unnið Villarreal á Spáni, 3-2, og fer því enska liðið samanlagt áfram, 5-2. Stuðningsmönnum Liverpool leist alls ekki á blikuna í hálfleik en ein skipting breytti öllu.

Völlurinn var þungur og mikið hafði rignt í Villarreal-borg. Eitthvað sem heimamenn nýttu sér fyrir framan eigin stuðningsmenn.

Boulaye Dia skoraði eftir tæpar þrjár mínútur. Pervis Estupinan átti fyrirgjöf fyrir markið og var það Etienne Capoue sem var mættur á fjær. Hann náði að pota boltanum fyrir markið á DIa sem skoraði af stuttu færi. Ágætis byrjun á leiknum.

Það var gríðarlegur kraftur í Villarreal-liðinu. Liverpool átti í miklum erfiðleikum allan fyrri hálfleikinn.

Á 37. mínútu vildu heimamenn fá vítaspyrnu er Alisson mætti í tæklingu á Giovani Lo Celso. Dómarinn sá ekkert athugavert við það enda virtist tæklingin lögleg og áfram héld leikurinn.

Fjórum mínútum síðar skoraði Francis Coquelin annað mark Villarreal. Capoue snéri af sér Andy Robertson áður en hann kom með boltann fyrir á Coquelin sem skallaði boltann í netið.

Staðan 2-0 í hálfleik fyrir Villarreal og jafnt í einvíginu. Leikmenn Liverpool fengu greinilega ágætis ráð í hálfleik því liðið mætti með mikla orku í þann síðari. Jürgen Klopp gerði eina breytingu, hann setti Luis Díaz inná fyrir Diogo Jota og gerði það gæfumuninn.

Díaz hræddi varnarmenn Villarreal frá því hann kom inn og Liverpool fór að sækja af mikilli ákefð. Trent Alexander-Arnold átti skot í slá úr aukaspyrnu.

Á 62. mínútu skoraði Fabinho. Brasilíumaðurinn fékk boltann vinstra megin í teignum og sá Geronimo Rulli hreyfa sig skringilega á línunni. Fabinho lét vaða og fór boltinn undir Rulli. Argentínski markvörðurinn átti að gera betur þarna og Liverpool komið með yfirhöndina í einvíginu.

Fimm mínútum síðar kom annað mark Liverpool. Alexander-Arnold átti fyrirgjöf frá hægri inn í teiginn. Díaz stangaði boltann í netið. Kólumbíumaðurinn var einn og óvaldaður inn í teignum og eftirleikurinn auðveldur.

Sadio Mané gerði svo út um vonir Villarreal á 74. mínútu. Þeir gulklæddu færðu menn ofar á völlinn. Liðið missti frá sér boltann og Keita fann Mané sem var að sleppa einn í gegn.

Rulli fór í skógarhlaup og ætlaði að stöðva sóknina en Mané hafði betur gegn honum. Mané hristi þá af sér varnarmann Villarreal áður en hann kom boltanum í autt markið.

Þegar fjórar mínútur lifðu leiks fékk Capoue sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt eftir að hafa brotið á Curtis Jones og spiluðu því heimamenn manni færri síðustu mínúturnar.

Þvílík endurkoma hjá enska liðinu á El Madrigal. 3-2 sigur í kvöld og samanlagt 5-2 í einvíginu. Liverpool er komið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í þriðja sinn undir stjórn Klopp og mætir þar Manchester City eða Real Madrid.
Athugasemdir
banner