Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 03. ágúst 2022 21:08
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Þægilegt fyrir lærlinga Óla Jó gegn FH - Stjarnan bjargaði stigi gegn Fram
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Guðmundur Andri Tryggvason gerði bæði mörkin er Ólafur Jóhannesson stýrði Val til 2-0 sigurs gegn sínum fyrrum lærisveinum í FH. 


Óli Jó var rekinn úr Hafnarfirðinum í júní og Eiður Smári Guðjohnsen ráðinn í hans stað en í dag var það Óli sem bar sigur úr býtum.

Guðmundur Andri skoraði fyrsta mark leiksins óvart skömmu fyrir leikhlé þegar hann fékk fastan bolta frá Patrick Pedersen í sig og þaðan hrökk hann í netið. Fram að þessu höfðu bæði lið átt góð færi í þokkalegum leik.

Heimamenn voru talsvert betri í síðari hálfleik og tvöfaldaði Guðmundur forystuna þegar hann slapp í gegn á 63. mínútu. Valsarar komust nálægt því að bæta þriðja markinu við en það hafðist ekki og sanngjarn 2-0 sigur staðreynd.

Valur er áfram í fimmta sæti deildarinnar, með 24 stig eftir 15 umferðir. FH er í fallbaráttu, einu stigi fyrir ofan fallsvæðið.

Lestu um leikinn

Valur 2 - 0 FH
1-0 Guðmundur Andri Tryggvason ('42)
2-0 Guðmundur Andri Tryggvason ('63)

Stjarnan er í fjórða sæti með 25 stig eftir jafntefli gegn nýliðum Fram í leik sem fór gríðarlega skemmtilega af stað.

Emil Atlason skoraði strax á fjórðu mínútu eftir frábæran undirbúning frá Ísaki Andra Sigurgeirssyni en það tók Tiago Fernandes aðeins þrjár mínútur að jafna eftir flott þríhyrningsspil við Indriða Áka Þorláksson.

Tiago kom Fram svo yfir þegar hann stal boltanum af Þórarni Inga Valdimarssyni á hættulegum stað og kláraði með föstu skoti sem svipaði mikið til fyrra marksins. Tvenna á níu mínútum fyrir Tiago.

Gestirnir úr Garðabæ komust nálægt því að jafna leikinn en inn vildi boltinn ekki og staðan 2-1 í leikhlé. Seinni hálfleikur fór rólega af stað en svo komst Tiago nálægt því að fullkomna þrennuna þegar aukaspyrna hans fór rétt yfir þverslána af 26 metra færi.

Stjörnumenn tóku stjórn á leiknum eftir þessa aukaspyrnu og komust nokkrum sinnum nálægt því að jafna en Ólafur Íshólm Ólafsson átti flottan leik á milli stanga heimamanna. Jöfnunarmarkið kom þó að lokum, þegar Guðmundur Baldvin Nökkvason setti boltann loksins í netið á 84. mínútu með frábærum skalla eftir hornspyrnu Óskars Arnars Haukssonar. 

Lokatölur urðu 2-2 og er Fram búið að jafna Keflavík á stigum í sjöunda sæti, bæði lið með 18 stig eftir 15 umferðir.

Lestu um leikinn

Fram 2 - 2 Stjarnan
0-1 Emil Atlason ('4)
1-1 Tiago Fernandes ('7)
2-1 Tiago Fernandes ('16)
2-2 Guðmundur Baldvin Nökkvason ('84)


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner