Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fös 03. september 2021 11:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þurfum að fara einhver tíu ár til baka"
Icelandair
Andri Lucas Guðjohnsen, sem er 19 ára, eltir boltann í gær.
Andri Lucas Guðjohnsen, sem er 19 ára, eltir boltann í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Berg bar fyrirliðabandið í leiknum við Rúmeníu.
Jóhann Berg bar fyrirliðabandið í leiknum við Rúmeníu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur orðið rosalega mikil breyting á íslenska landsliðinu á stuttum tíma núna.

Í núverandi verkefni eru ekki margir leikmenn sem hafa myndað liðið á miklum gullaldartíma síðustu tíu ár. Í byrjunarliðinu gegn Rúmeníu í gær voru aðeins þrír leikmenn sem hafa spilað stórt hlutverk í liðinu sem fór á tvö stór mót; Birkir Bjarnason, Birkir Már Sævarsson og Jóhann Berg Guðmundsson.

Það er óvíst hvort að margir af lykilmönnum síðustu ára snúi aftur í landsliðið á nýjan leik, en Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, var spurður að því á blaðamannafundi í gær hvort hann væri meðvitaður um að það gæti tekið tíma fyrir nýtt lið og nýja leikmenn að finna tengingu og takt.

„Til að svara þessari spurningu held ég að sé best að við lítum til baka," sagði Arnar.

„Við þurfum að fara einhver tíu ár til baka. Þegar liðið okkar - sem fer á EM - var að byrja að spila saman, að byrja að fá leiki. Í raun er það nákvæmlega sama að gerast núna. Við vonum að ungu leikmennirnir sem eru að koma inn núna eigi eftir að komast eins langt og okkar bestu leikmenn."

„Þegar við kíkjum til baka, ég er ekki með tölfræðina alveg á hreinu - þið verðið að skoða hana fyrir mig. Þegar þessi kynslóð byrjaði að spila voru ansi margir tapleikir í röð. Í rauninni erum við þar núna. Það lið hafði líka fjóra, fimm, sex mjög reynda leikmenn til að hjálpa til."

„Til að svara spurningunni, þá þurfum við að gera okkur grein fyrir því hvar við erum. Þegar við sjáum hvernig liðið spilaði í kvöld og hvernig hugarfarið var, þá er ég nokkuð brattur á að þessir tapleikir þurfi ekki að vera svona margir áður en við getum byrjað að klífa nýtt fjall," sagði Arnar.

Tölfræðin sem Arnar var að tala um
Þegar litið er til baka, til ársins 2010, þegar leikmenn eins og Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg komu inn í liðið þá byrjaði liðið á að tapa fjórum leikjum í röð, í september þangað til í nóvember.

Svo gerði liðið jafntefli við Kýpur, tapaði þremur leikjum í röð og tókst svo að vinna 1-0 sigur á Kýpur. Eftir það töpuðust fimm leikir í röð og svo kom sigurleikur gegn Færeyjum.

Svo kom sigurinn frækni gegn Noregi í undankeppni HM 2014, á Laugardalsvelli. Það voru í raun úrslitin sem hófu velgengnina.
Athugasemdir
banner
banner