Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 08. október 2021 15:00
Elvar Geir Magnússon
Vanda um stöðu Arnars: Er ekki ein í þessari ákvörðun
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vanda Sigurgeirsdóttir nýr formaður KSÍ telur að Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari þurfi að fá þolinmæði í að endurbyggja landsliðið. Arnar hefur fengið talsverða gagnrýni síðan hann tók við þjálfun liðsins.

Í skoðanakönnun eftir landsleikjagluggann í febrúar svöruðu 68,6% því neitandi í skoðanakönnun að hann væri rétti maðurinn til að leiða kynslóðaskipti Íslands.

Vanda gaf Arnari stuðningsyfirlýsingu í Sprengisandi á Bylgjunni um síðustu helgi og var spurð nánar út í þau ummæli í hlaðvarpsviðtali við Fótbolta.net í gær.

„Ég er enn ekki búin að hitta stjórnina og er ekki ein í þessari ákvörðun. Það á eftir að taka þessa ákvörðun. Arnar fær þessa stöðu og ef maður hugsar til baka, hvaða tækifæri hefur hann í raun fengið til að sanna sig sem þjálfari? Hann er alltaf með nýtt lið. Sem þjálfari sjálf væri ég ekki mjög spennt, þetta er erfitt. Hann er að reyna að byggja upp lið en svo breytist það aftur og aftur," segir Vanda.

„Það er það sem ég var að hugsa. Í gegnum þessa fjóra leiki verðum við að styðja við bakið á honum. Hvað framtíðin leiðir í ljós, ég ræð því ekki sjálf. En ég er á því að hann hafi ekki fengið tækifæri til að sanna sig sem þjálfari út af þeim aðstæðum sem hafa verið."

Miðasala á landsleikinn gegn Armeníu hefur verið mjög dræm og greinilega verk að vinna að fá Íslendinga aftur við bak landsliðsins og landsliðsþjálfarans.

„Sú vinna sem ég hef unnið með Arnari, ég hef verið mjög ánægð með það sem hann hefur verið að gera. Ég vil styðja við hann og alla landsliðsþjálfarana. Þjálfararnir okkar eru að hjálpast mikið að og vinna þetta saman. Mér finnst það afskaplega jákvætt," segir Vanda.

Ég get sagt það einu sinni enn
Í frétt 433.is í síðustu viku var því haldið fram að Vanda hefði haft áhrif á að Arnar Þór hafi ekki valið Aron Einar Gunnarsson landsliðsþjálfara. Vanda var þá ekki tekin við formennsku. Hún og Arnar hafa bæði hafnað þessum fréttaflutningi.

„Hversu oft getum við sagt að þetta hafi ekki verið svona? Ég get sagt það einu sinni enn að ég hafði ekki áhrif á valið, hótaði honum engu og setti honum ekki stólinn fyrir dyrnar. Ég veit ekki hvað ég get sagt meira en það," segir Vanda.

Hún segist sjálf vera á þeirri skoðun að leikmenn sem séu undir lögreglurannsókn eigi ekki að vera valdir. Sérstök nefnd hefur verið sett á laggirnar sem skoðar verkferla innan KSÍ.

„Mér finnst eðlilegt að þegar mál séu til skoðanir þá stígi menn til hliðar. Það gera þetta allir; fyrirtæki, stofnanir, liðið hans Kolbeins gerði þetta meðan þeir voru að skoða þetta. Það eru allir að gera þetta og ég tel þau eðlilegt vinnubrögð. En hvort þetta verði niðurstaðan úr þessari nefnd hef ég ekki hugmynd um," segir Vanda.

Í hlaðvarpsþættinum var hún einnig spurð út í stöðu yfirmanns fótboltamála. Guðni Bergsson setti stöðuna á laggirnar og réði Arnar Þór í hana. Arnar er nú í henni samhliða því að vera landsliðsþjálfari, eitthvað sem hefur hlotið gagnrýni.

Hefur Vanda skoðun á stöðu yfirmanns fótboltamála?

„Nei, ég get svarað því hreint út. Ég er ekki búin að afla mér nægilegra upplýsinga. Mér finnst ég ekki lélegri formaður ef ég segi það heldur betri, ég ætla ekki að bulla eitthvað hérna til að reyna að líta betur út í viðtali. Svona er þetta bara og þetta er á listanum."
Vanda Sig er sest í formannsstólinn - Ætlar að koma KSÍ úr krísunni
Athugasemdir
banner
banner
banner