Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 11. september 2018 14:30
Elvar Geir Magnússon
Maradona segist vera endurfæddur
Maradona tekur sig vel út á æfingasvæði Dorados.
Maradona tekur sig vel út á æfingasvæði Dorados.
Mynd: Getty Images
Argentínumaðurinn Diego Armando Maradona segist vera endurfæddur eftir áralanga baráttu við eiturlyfjafíkn, alkahólisma og offitu.

Hann hefur verið kynntur sem nýr þjálfari mexíkóska B-deildarliðsins Dorados en það er staðsett á svæði í landinu þar sem einn valdamesti eiturlyfjahringur Mexíkó er staðsettur.

Liðið er sem stendur í 13. sæti í B-deild Mexíkó, Liga Ascenso. Það hefur ekki náð að fagna sigri í fyrstu sex umferðum deildarinnar.

Maradona segir að verkefnið framundan sé svipað erfitt og að „bera fíl á öxlunum".

„Ég er ekki hrifinn af því að spila varnasinnaðan fótbolta. Við munum sækja til sigurs," sagði Maradona á fréttamannafundi. Hann talaði einnig um vandamál sín síðustu ár.

„Ég hef oft misstigið mig í lífinu. Þessi ábyrgð sem ég fæ núna er eins og ábyrgð þess sem heldur á nýfæddu barni. Þegar ég neytti eiturlyfja tók ég skref til baka en fótboltaleikmenn þurfa að fara áfram."

Maradona talar um starf sitt hjá Dorados sem nýtt upphaf en hann hefur áður stýrt Al-Fujairah og Al-Wasl í arabísku furstadæmunum auk þess sem hann var landsliðsþjálfari Argentínu frá 2008 til 2010.

Maradona er talinn einn besti fótboltamaður sögunnar en hann náði ehátindi ferils síns í Mexíkó, á HM 1986 þegar hann varð heimsmeistari með Argentínu.
Athugasemdir
banner
banner