Kristján Gunnarsson er búinn að skrifa undir tveggja ára samning við Hauka eftir að hafa staðið sig vel í 3. deildinni síðustu tvö tímabil.
Kristján er uppalinn hjá Breiðabliki og lék fyrst í 3. deild með Augnablik og svo Elliða í sumar.
Kristján leikur sem sóknarsinnaður hægri bakvörður og er aðeins tvítugur. Hann skoraði fjögur mörk í 15 deildarleikjum í sumar og eru Hafnfirðingar spenntir fyrir þessum efnilega leikmanni.
Kristján, sem býr yfir miklum hraða og hlaupagetu, spilar einnig fótbolta með háskólaliði Harvard í Bandaríkjunum.
„Haukar eru virkilega spenntir fyrir því að fá Kristján til liðsins og búast við miklu af honum í framtíðinni," segir meðal annars í frétt á vefsíðu Hauka.
Haukar leika í 2. deild og enduðu þar með 24 stig úr 22 leikjum í sumar og töpuðu meðal annars sjö síðustu leikjum tímabilsins.