Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 19. maí 2021 14:16
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spennandi ráðning tíu árum síðar - „Maður ber gríðarlegar taugar"
Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á æfingu hjá U21 landsliðinu á Evrópumótinu.
Á æfingu hjá U21 landsliðinu á Evrópumótinu.
Mynd: Fótbolti.net - Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
KSÍ tilkynnti í dag um mjög spennandi ráðningu hjá U21 landsliði karla. Hermann Hreiðarsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari íslenska U21 landsliðsins í fótbolta.

Hermann, sem er með UEFA Pro gráðu í þjálfun, er fæddur 1974 og steig hann sín fyrstu skref sem leikmaður í meistaraflokki með ÍBV. Alls lék Hermann 89 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði fimm mörk, og átti langan feril sem atvinnumaður í Englandi.

Á þjálfaraferlinum hefur Hermann starfað sem aðalþjálfari í efstu deildum karla og kvenna hér á landi – þjálfaði karlalið ÍBV sumarið 2013, karlalið Fylkis árin 2015-2016 og kvennalið Fylkis 2017.

Þá hefur hann starfað sem aðstoðarþjálfari í Englandi og á Indlandi. Hermann hefur tvívegis verið aðstoðarmaður Sol Campbell í ensku neðri deildunum, fyrst hjá Macclesfield og svo hjá Southend. Í fyrra létu þeir af störfum hjá Southend. Það var ströggl hjá félaginu fjárhagslega og launagreiðslur ekki alltaf að skila sér til leikmanna.

Hermann hefur átt fjölbreyttan þjálfaraferil en hann stýrir nú Þrótti Vogum í 2. deildinni. Hann hefur gert það með virkilega flottum árangri hingað til og var hann valinn þjálfari ársins í 2. deild í fyrra eftir að hann kom næstum því Þrótti upp. Hikst í síðasta leik áður en mótið var slaufað kom í veg fyrir það að Þróttur fór upp.

Það er ekki annað hægt að segja en að þetta sé spennandi ráðning enda þekkir Hermann landsliðsumverfið vel. Yngri landsliðsmenn þjóðarinnar fá núna að læra af manni sem hefur náð einna lengst í fótboltanum þegar kemur að Íslendingum.

Hermann mun vinna með Davíð Snorra Jónassyni í U21 landsliðinu og munu þeir eflaust vega og meta hvorn annan vel upp. Davíð er með mikla reynslu í þjálfun yngri fótboltamanna og Hermann kemur inn með mikla reynslu úr atvinnumannaumhverfi, og úr landsliðsumhverfinu auðvitað. Þeir eru báðir með mjög góða kosti í þetta starf.

Fyrrum landsliðsfyrirliðinn var í viðtali í útvarpsþættinum fyrr á árinu þar sem hann sagðist hafa lært mikið á átta árum sínum í þjálfun. Hann sagðist þar jafnframt hafa áhuga á því að koma aftur inn hjá KSÍ.

„Að sjálfsögðu. Maður var þarna í sirka sextán ár og maður ber gríðarlegar taugar. Maður átti frábæra tíma þótt að þetta hefði verið mjög mikið 'næstum því'," sagði Hermann.

Núna er hann kominn aftur inn hjá KSÍ tíu árum eftir að hann spilaði síðast landsleik. U21 landsliðið hefur næstu undankeppni í september en liðið er í riðli með Grikklandi, Kýpur, Portúgal, Hvíta-Rússlandi og Liechtenstein.

Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Hermann með því að hérna.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner