Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 20. febrúar 2019 21:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jón Rúnar: Framtíð FH er bjartari en nokkru sinni
Jón Rúnar stígur frá borði.
Jón Rúnar stígur frá borði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Rúnar er búinn að vera formaður frá 2005.
Jón Rúnar er búinn að vera formaður frá 2005.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Rúnar Halldórsson er hættur sem formaður knattspyrnudeildar FH og tekur Valdimar Svavarsson við hans starfi.

Jón Rúnar var stjórnarmaður hjá FH áður en hann tók við sem formaður haustið 2005. Með Jón Rúnar í formannsstólnum hefur FH náð frábærum árangri. Í stjórnartíð hans hefur félagið unnið fjölmarga titla.

En af hverju er Jón Rúnar að hætta?

„Það er bara eins og með margt í þessu lífi. Einhvern tímann áttarðu þig á því að það er komið nóg og þú getur gert gagn með því bæði að fara frá og hjálpa til á annan hátt," sagði Jón Rúnar við Fótbolta.net eftir aðalfund FH sem fór fram í kvöld.

„Ég geng mjög sáttur frá borði. Maður getur ekki annað verið en sáttur við þann árangur sem FH hefur náð og þann stað sem knattspyrnudeild FH er í dag."

„Það er ekkert í þessari ákvörðun minni sem hefur eitthvað með neikvæðar kenndir í garð félagsins. Alls ekki. Ég er mjög stoltur af mínu fólki. Vonandi hef ég gert eitthvað gagn."

Sigurformúlan
Eins og áður kemur fram hefur árangurinn verið frábær hjá FH með Jón í fararbroddi. Í viðtali við Fótbolta.net uppljóstraði Jón hver lykillinn væri að þessum góða árangri.

„Það er þetta gamla góða. Það er vinnusemi, að halda sig við þau markmið sem maður hefur sett sér, berjast fyrir þínum málum og að halda hlutunum þeim einföldum að maður skilji þá sjálfur," sagði Jón Rúnar léttur.

Hann segir að Íslandsmeistaratitillinn frá 2004 muni koma til með að standa upp úr, þótt hann hafi ekki verið formaður á þeim tíma.

„Það er úr ótal mörgu að taka. Ég var varaformaður 2004 þegar við unnum titilinn á Akureyri. Það er grunnurinn að öllum öðrum góðum minningum."

Skiptir um íbúð en er á sama stigaganginum
Valdimar Svavarsson verður eftirmaður Jóns Rúnars. Hann var sá eini sem bauð sig fram í embættið. Valdimar er hagfræðingur og fyrrverandi bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, en hann hefur gegn embætti varaformanns hjá knattspyrnudeild FH undanfarin ár.

„Mér líst rosalega vel á eftirmann minn enda er hann nágranni minn. Hann hefur unnið með mér í allnokkra tíð. Mér líst rosalega vel á það fólk sem fer að vinna með honum," sagði Jón Rúnar og bætti við:

„Framtíð knattspyrnudeildar FH er bjartari en nokkru sinni."

Jón Rúnar er formaður byggingarnefndar FH og mun gegna því embætti áfram. „Við höldum áfram að byggja og marka spor. Við höfum verið svolítið í því."

„Ég er ekki farinn neitt. Ég skipti bara um íbúð. Ég er á sama stigaganginum."

Er eitthvað sérstakt á döfinni hjá Jóni Rúnari?

„Það er bara eins og alla aðra daga. Það er morgundagurinn. Þeir hafa nóg að gera sem nenna."

Að lokum sagði þessi skemmtilegi karakter:

„Ég ætla að vona það að ég geti byrjað að slaka á þegar ég er á leikjum. Ef allir halda áfram að vera eins og þeir eru þá gengur allt saman vel."
Athugasemdir
banner