Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 23. maí 2021 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mikill munur á Arnari og Víkingum - „Munum hvernig Klopp byrjaði"
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur hefur byrjað Pepsi Max-deildina stórkostlega og er liðið á toppi deildarinnar ásamt Val með 13 stig.

Víkingur átti í vandræðum í fyrra og vann aðeins þrjá leiki. Liðið sogaðist niður í botnbaráttuna en hélt sér uppi þar sem það voru tvö slakari lið í deildinni; Fjölnir og Grótta.

Víkingarnir eru búnir að taka miklum framförum hvað varðar úrslit og eru þeir búnir að vinna fleiri leiki en þeir gerðu allt mótið í fyrra. Leikstíllinn er aðeins breyttur, Víkingarnir eru farnir að verjast mikið betur.

Það var farið yfir Pepsi Max-deildina í útvarpsþættinum í gær og þar barst talið að Víkingum.

„Ég sé ævintýralegan mun á Arnari Gunnlaugssyni, hvernig hann 'aktar' og hvernig liðið er að spila," sagði Gunnlaugur Jónsson í útvarpsþættinum.

„Ég veit ekki hvort þetta sé rétt samlíking en við munum hvernig Klopp byrjaði með Liverpool. Það var þungarokk, ekki mikil varnartaktík eða varnarholning á liðinu. Svo kemur það á þriðja tímabili, breytt Liverpool lið. Þeir skora minna og það er minna fengið á sig. Þetta er stór samlíking en samt..."

„Setjum þetta bara í minni heim. Arnar fær 'Virgil van Dijk' heilan í fimm umferðir í Kára Árnasyni. Allt í einu er Alisson kominn aftur í Þórði Ingasyni. Hann er búinn að vera stórkostlegur," sagði Tómas Þór Þórðarson.

„Þessi taktík hentar Kára Árnasyni vel. Ég vil benda ungum hafsentum að horfa á hann. Hann er bara geggjaður, geggjaður hafsent. Ekki horfa á hann í sjónvarpinu, farið á leiki," sagði Gunnlaugur.

„Það er búið að vera rosa gaman að þessum rokk og ról fótbolta, og ég dýrkaði það alveg. Það sem hefur alls ekki hentað Kára, Sölva og Halla er að vera að verjast í 'transition', að verjast á hlaupinu til baka. Það geta allir litið vel út á móti Kára þegar hann er að hlaupa aftur á bak," sagði Tómas.

Hægt er að hlusta á allan þáttinn hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Íslenskt boltahlaðborð með Gulla Jóns
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner