Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 23. desember 2020 10:55
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rúnar eyðir Twitter aðgangi sínum - Fékk skammir á AFTV
Rúnar Alex Rúnarsson.
Rúnar Alex Rúnarsson.
Mynd: Getty Images
Robbie og DT af Arsenal Fan TV.
Robbie og DT af Arsenal Fan TV.
Mynd: Arsenal Fan TV
Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður Arsenal og íslenska landsliðsins, er búinn að eyða Twitter-reikningi eftir að hafa fengið ljót skilaboð frá stuðningsmönnum Arsenal.

Rúnar Alex átti ekki góðan leik í 4-1 tapi gegn Manchester City í deildabikarnum í gær.

Rúnar Alex greip í tómt í fyrsta markinu sem Gabriel Jesus skoraði og gerði hann afar slæm mistök þegar Riyad Mahrez kom Man City í 2-1. Mahrez tók aukaspyrnu sem fór beint á Rúnar, en landsliðsmarkvörðurinn missti boltann inn. Mahrez talaði um það í viðtali eftir leik að staðsetning Rúnars í aukaspyrnunni hefði komið honum á óvart.

Rúnar virkaði mjög óöruggur og Arsenal stuðningsmenn virðast ekki hafa mikla trú á honum lengur.

Hann fékk mikla gagnrýni á samfélagsmiðlum og er núna búinn að eyða Twitter-reikningi sínum. Arsenal er með stóran stuðningsmannahóp út um allan heim. Á Youtube-rás sem heitir AFTV fá stuðningsmenn vettvang til að láta skoðun sína í ljós, en rásin er með yfir milljón áskrifendur.

Rásin er mjög umdeild en þeim gengur hvað best þegar félaginu gengur illa. „Ég er mikill aðdáandi AFTV en fyrir leikmenn er þetta mikil pressa. Nafnið þitt gæti komið upp, þú færð að heyra það og það hefur áhrif á sjálfstraust þitt. Leikmenn líta mikið á samfélagsmiðla," sagði Micah Richards, fyrrum leikmaður Manchester City, á Sky Sports í gær.

Rúnar fékk aldeilis að heyra það á Arsenal Fan TV. DT, sem er á meðal vinsælustu meðlima rásarinnar, lét íslenska markvörðinn heyra það.

„Ég hefði tekið hann út af," sagði DT þegar hann var að tala um staðsetningar Rúnars í aukaspyrnum. „Hvað er þetta? Þetta er ekki nægilega gott fyrir þetta félag."

„Hann er ömurlegur," sagði hann jafnframt og bætti því við að Arsenal yrði í miklum vandræðum ef Bernd Leno, aðalmarkvörður liðsins myndi meiðast. „Það er engin afsökun fyrir Rúnarsson, hann er 25 ára og á landsleiki. Markverðir gera mistök, en maður er ekki búinn að vera viss með hann."

Þeir héldu því svo fram að það væri eins og Manuel Almunia væri mættur aftur til Arsenal, nema það að Almunia væri betri.

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, stóð við bakið á Rúnari eftir leik.



Athugasemdir
banner
banner