Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 26. ágúst 2021 06:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Leikurinn gegn Hoffenheim sýndi að við erum ekkert rosalega langt frá þessu"
Valsliðið tapaði gegn Hoffenheim en lagði Zurich í síðustu viku.
Valsliðið tapaði gegn Hoffenheim en lagði Zurich í síðustu viku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þjálfarateymið; Pétur Pétursson og Eiður Ben á hliðarlínunni í gærkvöldi, ánægðir með að vinna Íslandsmeistaratitilinn.
Þjálfarateymið; Pétur Pétursson og Eiður Ben á hliðarlínunni í gærkvöldi, ánægðir með að vinna Íslandsmeistaratitilinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslandsmeistaratitlinum í gær fagnað.
Íslandsmeistaratitlinum í gær fagnað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var rosalega mikil gleði í hópnum - eins og í gær.
Það var rosalega mikil gleði í hópnum - eins og í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fréttaritari Fótbolta.net ræddi á dögunum við Eið Ben Eiríksson, annan af þjálfurum Vals, í kjölfarið á verkefni liðsins í Meistaradeild Evrópu sem fram fór í síðustu viku. Í fyrstu umferð var svokallað 'míní mót' þar sem spilaður var undanúrslitaleikur og svo úrslitaleikur um sæti í næstu umferð.

Valur mætti Hoffenheim í undanúrslitum og tapaði naumlega, 1-0. Liðið mætti svo Zurich í leik um 'þriðja sætið'. Sigurliðið í leiknum átti ekki möguleika á því að fara áfram í næstu umferð en í boði voru þó UEFA stig sem geta talið á næstu árum. Þá fékk sigurliðið einnig 5000 evrur í verðlaun.

Báru kannski fullmikla virðingu fyrir Hoffenheim
„Þetta var geggjað verkefni, bara svekkjandi að ná ekki úrslitum í fyrsta leik. Ég held að við höfum áttað okkur á því í leiknum að við vorum nær þeim en við kannski héldum. Ég held að við höfðum alveg trú á þessu verkefni gegn Hoffenheim en kannski ekki alveg fulla trú á því að við ættum að vinna þetta lið. Ég held að við höfum kannski borið fullmikla virðingu fyrir þeim," sagði Eiður.

„Við stóðum okkur vel en maður hefði viljað að við hefðum sótt betur og skapað okkur fleiri færi í þeim leik. Eftir þann leik var þetta eins og góð æfingaferð sem við höfum ekki fengið síðustu tvö ár. Við nýttum ferðina vel og það var mikil stemning í hópnum. Frammistaðan í seinni leiknum var svo frábær."

Varnarlega gekk vel en verr með boltann
Ef þú horfir í leikinn gegn Hoffenheim, hvað hefðuð þið viljað gera öðruvísi?

„Kannski ekkert öðruvísi. Hið augljósa er að það hefði verið frábært ef við hefðum getað verið með Elínu Mettu og Mary Alice í þeim leik. Þær sem spiluðu leikinn stóðu sig vel."

„Það voru stöður í leiknum sem við hefðum getað nýtt betur og opnað þær. Þetta var 'tight' leikur, hvorugt liðið skapaði sér mikið. Þær fengu gott færi í fyrri hálfleik og síðan skoruðu þær markið. Varnarlega gekk nánast allt upp en þegar við unnum boltann hefði ég viljað að við hefðum náð að skapa okkur betri stöður."


Elín Metta Jensen og Mary Alice Vignola léku ekki með gegn Hoffenheim eins og Eiður kom inn á.

„Elín treysti sér til að koma inn á gegn Hoffenheim, leikurinn gegn Zurich þróaðist svo þannig að við ákváðum að hvíla hana alveg. Mary Alice var klár í að spila gegn Zurich og við ákváðum að setja hana inn á."

„Varðandi Elínu þá hugsuðum við að ef við hefðum jafnað leikinn gegn Hoffenheim, þá hefðum við farið í framlengingu. Ef við hefðum jafnað leikinn án hennar þá hefði hún komið inn í leikinn á þeim tímapunkti. Hún hefði kannski getað spilað en spurning hversu mikið, það var stutt frá því að hún fékk krampa gegn Breiðabliki."


Mikil gleði í hópnum
Þjappaðist hópurinn saman í þessari ferð?

„Já, klárlega. Það var rosalega mikil gleði í hópnum og allir ánægðir að komast í nýtt umhverfi og gott veður. Þetta braut aðeins upp tímabilið sem hefur verið frábært. Þessi ferð mun klárlega nýtast hópnum."

Óheppni með drátt en ekkert rosalega langt frá þessu
Hvað finnst þér þurfa að gerast til að Valur geti slegið út lið eins og Hoffenheim í framtíðinni?

„Fyrst þarftu kannski að vera pínu heppinn með drátt. Við vorum 'unseeded' í þessum hluta keppninnar. Zurich var með flesta Meistaradeildarpunkta, 30000, og Hoffenheim með 18000 punkta. Hoffenheim var því neðar í styrkleikaröðuninni en liðið sem við svo unnum. AC Milan (liðið sem vann svo Hoffenheim í úrsltialeiknum) var neðst, fyrir neðan okkur þegar kemur að punktum."

„Þessi keppni er að mótast næstu árin og við hefðum getað mætt Zurich í undanúrslitunum sem dæmi, efstu tvö liðin voru 'seeded' og þá mætt AC Milan eða Hoffenheim í úrslitaleiknum."

„Leikurinn gegn Hoffenheim sýndi að við erum ekkert rosalega langt frá þessu, það er styttra bil en var fyrir kannski tíu árum. Ég held að við og þeir sem eru í kringum liðið átta sig kannski á því núna að við erum kannski aðeins betri en fólk hélt. Við töpum leiknum 1-0, þetta hefði getað dottið báðu megin, auðvitað voru þær betri aðilinn en við vorum ekkert langt frá þessu."

„Við svo vinnum Zurich og það sýnir okkur það að við erum ekkert rosalega langt frá þessu. Þetta gefur okkur rosalega reynslu að sjá að við getum þetta, þurfum bara að hafa trú á því þegar við förum inn í komandi Evrópukeppnir,"
sagði Eiður.

Í kjölfarið á því að þetta viðtal var tekið varð svo Valur Íslandsmeistari, liðið tryggði sér 6-1 sigur gegn Tindastóli í gær og landaði sínum tólfta meistaratitli í sögunni.
Athugasemdir
banner
banner