Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 30. október 2019 21:44
Brynjar Ingi Erluson
Enski deildabikarinn: Tíu marka veisla á Anfield - Liverpool vann í vító
Divock Origi var enn og aftur hetjan í Liverpool
Divock Origi var enn og aftur hetjan í Liverpool
Mynd: Getty Images
Gabriel Martinelli fagnar marki sínu í kvöld
Gabriel Martinelli fagnar marki sínu í kvöld
Mynd: Getty Images
Liverpool 5 - 5 Arsenal (5-4 eftir vítakeppni)
1-0 Shkodran Mustafi ('6 , sjálfsmark)
1-1 Lucas Torreira ('19 )
1-2 Gabriel Martinelli ('26 )
1-3 Gabriel Martinelli ('36 )
2-3 James Milner ('43 , víti)
2-4 Ainsley Maitland-Niles ('54 )
3-4 Alex Oxlade-Chamberlain ('58 )
4-4 Divock Origi ('62 )
4-5 Joseph Willock ('70 )
5-5 Divock Origi ('90 )

Enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool er komið í 8-liða úrslit enska deildabikarsins eftir að hafa unnið Arsenal í vítakeppni en staðan eftir venjulegan leiktíma var 5-5.

Það voru margir ungir leikmenn sem fengu tækifæri til að spreyta sig í kvöld og mátti því búast við mikilli skemmtun. Fyrsta markið kom á 6. mínútu en Alex Oxlade-Chamberlain átti þá fyrirgjöf sem Shkodran Mustafi stýrði í netið.

Lucas Torreira jafnaði metin með marki af stuttu færi eftir að Caoimhin Kelleher varði frá Bukayo Saka. Liverpool vildi fá rangstöðu dæmda á Torreira en dómarinn vildi lítið hlusta á það.

Gabriel Martinelli bætti við tveimur mörkum á tíu mínútum áður en James Milner jafnaði með marki úr vítaspyrnu sem Havery Elliott fiskaði undir lok fyrri hálfleik en þetta var bara byrjunin á ótrúlegum leik.

Ainsley Maitland-Niles gerði fjórða mark Arsenal eftir slæm mistök frá Milner. Léleg sending til baka á Kelleher varð til þess að gestirnir komust í færi sem Kelleher varði en Mesut Özil náði til knattarins, lagði hann aftur fyrir sig á Maitland-Niles sem skoraði.

Oxlade-Chamberlain minnkaði muninn með frábæru marki fyrir utan teig eftir sendingu frá Adam Lallanda. Hann þrumaði boltanum yfir Emiliano Martinez og í netið. Fjórum mínútum síðar jafnaði svo belgíski framherjinn Divock Origi með marki upp í hægra hornið fyrir utan teig.

Arsenal var þó enn í stuði og ákvað Joe Willock að svara Oxlade-Chamberlain með þrumuskoti af 30 metra færi. Hreint út sagt magnaður leikur.

Dramatíkin var þó ekki búin. Undir lok leiks átti hinn 18 ára gamli Neco Williams fyrirgjöf frá hægri og þar var Origi, einn og óvaldaður í teignum, klippti boltann í netið.

Það er engin framlenging í enska deildabikarnum og fór leikurinn því beint í vítaspyrnukeppni. Liverpool skoraði úr öllum spyrnunum á meðan Kelleher varði frá spænska miðjumanninum Dani Ceballos.

Liverpool áfram í 8-liða úrslitin eftir fjörugan leik á Anfield.


Athugasemdir
banner
banner