Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 31. ágúst 2021 14:18
Elvar Geir Magnússon
KSÍ kallaði til lögreglu - Einstaklingur með hótanir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mbl.is greinir frá því að lögreglan hafi verið kölluð til við höfuðstöðvar KSÍ eftir að þangað hafi mætt einstaklingur og verið með hótanir við starfsfólk.

Hann yf­ir­gaf höfuðstöðvarn­ar sjálf­vilj­ug­ur en lögreglan var kölluð til.

Öll stjórn KSÍ sagði af sér í gærkvöldi en áður hafði formaðurinn Guðni Bergsson stigið frá eftir harða gagnrýni á hvernig KSÍ hefur tekið á kynferðisofbeldi landsliðsmanna.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, ætlar hinsvegar að sitja áfram þrátt fyrir mikinn þrýsting um að segja af sér.

Öfgar og fornvarnarhópurinn Bleiki fíllinn gáfu frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem skorað er á Klöru að segja starfi sínu lausu.

„Að gefnu tilefni vilja Öfgar og forvarnarhópurinn Bleiki fíllinn árétta að friðsælu mótmælunum verður haldið til streitu nk. fimmtudag. Ástæðan er sú að Klara þarf að fara. Mæting er kl. 17:00 fyrir utan Laugardalsvöll fimmtudaginn 2. september," segir í yfirlýsingunni.

„Framferði Klöru er óboðlegt. Hún hefur fengið að skauta framhjá sannleikanum ítrekað, axlar enga ábyrgð og virðist ekkert sjá rangt við sitt framferði. Hún reynir að varpa ábyrgðinni á öll önnur í kringum sig, en sér ekkert að hjá sér sjálfri."
Athugasemdir
banner
banner
banner