Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   fös 10. mars 2017 12:30
Elvar Geir Magnússon
Þekktir íslenskir Arsenal-menn vilja Wenger burt
Mynd: Fótbolti.net
Það er heitt undir Wenger.
Það er heitt undir Wenger.
Mynd: Getty Images
Kjartan Björnsson sendi frá sér yfirlýsingu.
Kjartan Björnsson sendi frá sér yfirlýsingu.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Á endastöð?
Á endastöð?
Mynd: Getty Images
Stuðningsmenn Arsenal mótmæla Wenger.
Stuðningsmenn Arsenal mótmæla Wenger.
Mynd: Getty Images
Spjótin beinast að Arsene Wenger og það fjölgar ört í þeim hópi sem telur að kominn sé tími á að sá franski stígi frá borði í sumar.

Fótbolti.net hafði samband við þekkta íslenska stuðningsmenn Arsenal og spurði þá álits.

Aðeins einn af þeim tólf sem svöruðu gaf það út að best væri að Wenger yrði áfram við stjórnvölinn. Þó með þeim fyrirvara að nálgun þess franska þyrfti að breytast.

Einar Örn Jónsson, RÚV: BURT
Já, ég vil að Wenger hætti eftir tímabilið. Ég hef aldrei nennt Wenger out vælinu en andleg hollning liðsins núna er klárt merki um að breytinga sé þörf, líka á leikmannahópnum. Minn kandidat er Massimiliano Allegri, árangur hans segir sína sögu og ég fíla taktíkhringlið hans líka.

Siggi Dúlla, liðsstjóri landsliðsins: BURT
Kominn á endastöð, takk og bless. Massimiliano Allegri eða Thomas Tuchel.

Daníel Geir Moritz, Innkastinu: BURT
Ég er 60/50 í þessu en meira á því að hann þurfi að fara. Í staðinn væri ég til í að sjá Allegri eða Arsenal legend á borð við Henry eða Vieira.

Einar Guðnason, fótboltaþjálfari: BURT
Ég held að eftir tímabilið sé kominn tími á nýjan stjóra. Vonandi tilkynnir Wenger það fljótlega að leiðir muni skilja svo leikmenn og stuðningsmenn geti þakkað honum fyrir hans störf og sýnt honum þá virðingu sem hann á skilið í þeim leikjum sem eru eftir. Það mætti þess vegna endurnefna völlinn Wenger Stadium eða eitthvað álíka. Klárlega besti stjóri Arsenal frá upphafi.

Ég hef í raun ekki sterkar skoðanir á því hver gæti tekið við, en miðað við fréttir er raunsætt að horfa til Allegri sem virðist vera að hætta með Juve. Eitthvað í hans fari minnir mig á gamla góða Wenger og hann er á góðum aldri. Leonardo Jardim hjá Monaco er annar sem virðist spennandi kostur en sá mest spennandi er sennilega Jorge Sampaoli. Hann spilar sóknarbolta og hefur ástríðu fyrir allan peninginn sem virðist vanta hjá Arsenal þessa dagana.

Dagur Hjartarson, rithöfundur: BURT
Ég mun alltaf elska Wenger. En hann hefði átt að hætta 2015 þegar hann landaði FA bikarnum í sjötta skiptið. Liðið í ár er álíka andlaust og grá málningardolla. Ég vil sjá mann í brúnni sem er tilbúinn að deyja fyrir hópinn sinn og er líklegur til að laða sterka karaktera að liðinu og þjálfarateyminu. Þarf hann að hafa reynslu? Nei. En hann þarf að hafa hjarta heitt af rauðu Arsenal blóði. Þessi maður heitir Patrick Vieira. Komdu heim, týndi sonur.

Tryggvi Guðmundsson, fyrrum markahrókur: BURT
Ég er á Wenger out því miður. Ekkert að frétta hjá honum. Er Simeone maður.

Sigmundur Ó. Steinarsson, fyrrum íþróttafréttamaður: X
Ég hef alltaf verið mikill Wenger-maður og er. Það er alls eins líklegt að karlinn dragi sig í hlé í sumar. Liðið hefur verið í ótrúlega vondu standi upp á síðkastið og boðið hefur verið upp á vont liðsval og mjög skrítnar innáskiptingar.

Síðustu kaup hafa verið algjörlega mislukkuð - hópur miðlungsmanna kallaður til verka: Gabriel, Mohamed Elneny, Shkodram Mustafi, Rob Holdin, Granit Xhaka og Lucas Perez! Vörnin er slök og miðjan er handónýt - skipuð "dillibossum" sem hringsnúast um sjálfan sig, áður en þeir missa knöttinn. Fílupúkinn Özil er ekki vinsæll hjá stuðningsmönnum Arsenal í Norður-London, þar sem hann er kallaður: Sá lati! - "Lazy Boy!"

Ef Wenger heldur áfram, verður hann að gera stórátak í leikmannakaupum - hreinsa til, koma burtu ónýtum dillibossum og fá alvöru menn!

Kjartan Björnsson, rakari: BURT
Ég vísa í yfirlýsingu sem ég gaf á stuðningssíðu Arsenal á Íslandi og minni eigin á laugardaginn var. En eftirmann/menn sé ég fyrir mér hollan heimafenginn bagga Tony Adams eða Thierry Henry.

Davíð Snorri Jónasson, aðstoðarþjálfari Stjörnunnar: ÁFRAM
Liðið á í andlegum vandræðum. Leikmenn og þjálfari verða að líta í eigin barm. Ég er ekki á því að það þurfi að skipta um þjálfara en nálgun hans verður að breytast því afsakanir um peningaleysi er ekki til staðar lengur, það er allt klárt fyrir árangur. Fá fleiri leikmenn með betri karakter sem hægt er að gera stjörnur úr og ráða gamla leikmenn inn í félagið er eitthvað sem ég vil sjá.

Ef svo fer að Wenger hætti þá vil ég sjá Diego Simone mæta til London. Af hverju hann ? Þekkir það að hafa fyrir hlutunum í keppni með tveimur risum. Nær miklu úr leikmönnum, skemmtilegur varnarleikur og sér rétta karaktera sem vilja gera allt fyrir hann.

Stefán Hilmarsson, tónlistarmaður: BURT
Ég hef verið þeirrar skoðunar undanfarin tvö ár a.m.k. að tími Wengers sé liðinn. Nú finnst mér fullreynt og hann verður að víkja. Wenger hefur smátt og smátt fyllt liðið af léttfættum en léttvægum út- og innherjum á balletskóm, sem spila laglegan reitabolta, en án verulegrar ógnunar, nokkuð sem breska pressan kallar „sideways shufflers“.

Dagskipun þjálfarans virðist einatt sú, að gefa boltann á næsta mann fram í rauðan dauðann; gefa-gefa-gefa, allra helst ganga með boltann yfir marklínuna. Öllu skal fórnað fyrir „fallegan fótbolta“. Vissulega er „fallegi fótboltinn“ fallegur þegar vel tekst til, þá sjaldan. En það þarf fleira í enska valsinn en fagra skóna og silkifínt þríhyrningaspilið. Það þarf stál með silkinu, þetta er enska deildin, ekki sú spænka. Sárasjaldan sést afgerandi einstaklingsframtak, alvöru ógn og ’penetration’, hvað þá fullhuga skot fyrir utan teig, það er hending. Ofan á þetta hefur hin seinni ár hlaðist óstyrkur varnarleikur, auk þess sem liðið skortir sárlega leiðtoga.

Wenger hlýtur að sjá sæng sína uppreidda. Ég hef enga skoðun á því hver eftirmaður hans eigi að vera, en það er af nógu að taka. Nú þarf að skella upp styttu af prófessornum við leikvanginn, þakka honum vel unnin störf, en stokka svo upp, fá nýjan þjálfara sem losar sig við nokkra balletdansara og tekur inn nokkra fullveðja og dugandi stríðsmenn.

Matthías Már Magnússon, Rás 2: BURT
Já því miður er komin tími á Wenger, vonandi samt tekst honum að bjarga þessu tímabili þannig hann geti hætt með reisn, sem hann á svo sannarlega skililð. Ég vona að hann fari ekki að þjálfa annað lið, heldur verði upp í stúku á flugvellinum. Að því sögðu þá eins og staðan er í dag væri ég alveg til í að gefa Ronald Koeman séns með Patrick Vieira með sér.

Jón Kaldal, fjölmiðlamaður: BURT
Ég mun styðja Wenger á meðan hann er stjóri Arsenal. Ég vona hins vegar að hann hætti í vor, eins og ég hef vonast til að loknu hverju tímabili undanfarin þrjú ár. Draumurinn er að hann kveðji með FA bikarnum. Það væru góð endilok á magnaðri sögu hans hjá Arsenal.

Því miður virðast fáir átta sig á því að Arsenal varð aðeins þrisvar meistari 45 árin áður en Wenger kom og hafði endað í 12. og 5. sæti tímabilin tvö áður en hann sneri gengi klúbbsins við nánast á punktinum.

Conte var lengst af í efsta sætinu sem mögulegur arftaki. Í öðru sæti var Massimiliano Allegri, sem tók við frábæru Juve liði af honum og byggði síðan eigið stórkostlegt lið. Vonandi er sá orðrómur réttur að hann sé á leið til Norður London í sumar.
Athugasemdir
banner