„Mér líður alveg ótrúlega vel. Þetta var ógeðslega gaman. Ég lenti klukkan sex í morgun," sagði Aníta Dögg Guðmundsdóttir, markvörður Breiðabliks, eftir 3-0 sigur gegn FH í Bestu deildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 0 FH
Markvarðarmál Blika voru svolítið til umræðu fyrir leikinn þar sem Telma Ívarsdóttir nefbrotnaði í síðasta leik og gat ekki spilað þennan leik.
Það var óvíst hver yrði í marki Blika þar sem enginn varamarkvörður var til staðar. Aníta er í háskólaboltanum í Alabama í Bandaríkjunum og átti ekki að koma heim fyrr en á mánudaginn, en hún náði að koma heim fyrr.
„Telma lenti í nefbroti og það var búið að senda á mig hvernig staðan væri með flug. Svo er ég bara komin á klakann. Seinasta lokaprófið var á þriðjudaginn og svo sendi ég bara á kennarana. Það var allt í góðu að ég fengi að fara."
„Þetta reddaðist bara á seinustu stundu. Ég var mjög stressuð þar sem ég fór að sofa beint eftir að ég kom heim og svo vaknaði ég og hugsaði að þetta væri ekki að fara að enda vel. Svo fékk ég mér að borða og var bara góð."
Aníta átti bara góðan leik, eins og allt Blikaliðið.
Hægt er að sjá viðtalið við hana í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir