„Þetta er fyrsti leikurinn minn eftir að ég kom til baka þannig ég get lítið tjáð mig um hina tvo leiki tímabilsins. Ég er bara búin að vera með liðinu í rúma viku. Þetta er ungur hópur og það sem er svo spennandi við hann er að hann hefur margt að læra. Úrslitin eru ekki að detta okkur í hag en vegferðin er á réttri leið,“ sagði Caroline Mc Cue Van Slambrouck, sem er nýbyrjuð að æfa aftur með Keflavík eftir að hafa lagt skóna á hilluna eftir seinasta tímabil.
Lestu um leikinn: Fylkir 4 - 2 Keflavík
Caroline lagði skóna á hilluna eftir seinasta tímabil en er mætt aftur í Keflavíkurliðið í dag.
„Ég átti bara gott spjall við (Jonathan) Glenn og ég hef verið að þjálfa mikið í Keflavík og elska lífið þar. Ég var á Íslandi og hann spurði mig hvort ég væri til í að taka slaginn aftur. Þetta gerðist bara og ég er ennþá í dag að hugsa hvernig þetta gerðist. Þetta er bara gaman og það verður hugarfarið mitt í sumar, að hafa gaman. Ég lýt á þetta sem annað tækifæri fyrir mig að spila fótbolta.“
Caroline er himinlifandi með að hafa náð að spila sinn fyrsta leik í kvöld eftir að hafa lagt skóna á hilluna.
„Mér líður eins og 16 ára leikmanni sem er að byrja sinn fyrsta meistaraflokksleik. Ég ætla bara að hafa gaman af þessu. Ég horfi á þetta líka núna með þjálfaraaugum. Ég ætla að reyna að hjálpa hópnum eins og ég get. Ég er mjög glöð að vera í þessari stöðu að geta hjálpað og haft jákvæð áhrif.“
Eftir erfiða byrjun á tímabilinu fyrir Keflvíkinga eiga þær Valskonur í næsta leik. Leikirnir verða ekkert auðveldari.
„Við tökum þetta skref fyrir skref. Núna þurfum við bara að ná okkur niður eftir þennan leik og æfa vel í vikunni og undirbúa okkur fyrir næsta leik.“ sagði Caroline að lokum eftir 4-2 tap gegn Fylki í Árbænum í kvöld.
Viðtalið við Caroline má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.