fös 03.maí 2024 14:00 Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir |
|
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeild kvenna: 3. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeild kvenna í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð í deildinni. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-9 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Fram er spáð þriðja sæti deildarinnar,
Mackenzie Smith mun styrkja liðið mikið. Hún er miðjumaður sem var fyrirliði háskólans í Tennessee.
Mynd/Fram
'Ég tel deildina vera töluvert jafnari en fyrir ári síðan. Það eru flest lið með að lágmarki tvo til þrjá atvinnumenn í sínum liðum og er verið að leggja mikla vinnu í hvert og eitt lið'
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
1.
2.
3. Fram, 122 stig
4. HK, 101 stig
5. FHL, 99 stig
6. Grindavík, 81 stig
7. Selfoss, 76 stig
8. Grótta, 61 stig
9. ÍA, 56 stig
10. ÍR, 21 stig
3. Fram
Það er ekkert sérlega langt síðan Fram setti á laggirnar kvennalið sitt í núverandi mynd en uppgangurinn hefur verið hraður. Liðið fór með sigur af hólmi í 2. deild kvenna sumarið 2022 og í fyrra var árangurinn fínn í Lengjudeildinni þar sem Fram endaði í sjöunda sætinu. Núna er Fram spáð góðu gengi og fólk býst við því að þær verði í baráttunni um að komast upp í Bestu deildina í sumar. Það er kannski ekki skrítið þegar litið er til þess hvaða leikmenn hafa komið til félagsins í vetur. Fram hefur verið að gera hlutina rétt og í ákveðnum skrefum, en það verður spennandi sjá hvort félagið nái að taka næsta skref í sumar og verði þá jafnvel í baráttunni um að fara upp.
Þjálfarinn: Óskar Smári Haraldsson er þjálfari Fram og hefur verið það frá því fyrir tímabilið 2022. Óskar Smári, sem er frá Sauðárkróki, er mjög svo efnilegur þjálfari en hann hefur verið að vinna gott starf hjá Fram undanfarin ár með Anítu Lísu Svansdóttur. Núna er hann orðinn einn aðalþjálfari liðsins en hann skrifaði undir samning til 2026 eftir síðustu leiktíð. Óskar Smári var aðstoðarþjálfari Stjörnunnar og aðalþjálfari Tindastóls áður en hann tók við Fram.
Styrkleikar: Það virðist vera gott verkefni í gangi hjá Fram og það er vel haldið utan um liðið. Þjálfarinn er afar metnaðarfullur og leggur mikla vinnu í það sem hann er að gera. Leikmannahópurinn hefur orðið sterkari frá ári til árs, en þegar maður lítur á leikmannahópinn núna þá sér maður gæðin sérstaklega fram á við. Alda Ólafsdóttir og Murielle Tiernan hafa burði til að vera eitthvað besta sóknardúó sem sést hefur í þessari deild og ef þær fá þjónustu þá ættu þær að geta raðað inn mörkum í sumar. Það er góð stemning í Fram og alltaf gaman að kíkja upp í dal draumanna.
Veikleikar: Það er alltaf gaman í dal draumanna, en Fram þótti ekkert sérlega gaman á útivelli í fyrra og sótti liðið aðeins sex stig í níu útileikjum á síðasta tímabili. Framliðið fékk á sig 21 mark í Lengjubikarnum í vetur, meira en nokkuð annað lið í B-deild Lengjubikarsins. Það eru mörg ný andlit í leikmannahópnum og það gæti tekið tíma fyrir liðið að móta sinn leik í sumar. Það er kannski eitthvað sem þú hefur ekki mikið af - tíma - þegar það eru bara 18 leikir í mótinu.
Lykilmenn: Alda Ólafsdóttir, Mackenzie Smith og Murielle Tiernan.
Fylgist með: Telma Steindórsdóttir, hafsent sem hefur verið viðloðandi yngri landslið Íslands undanfarin ár. Kom á láni til Fram seinni hlutann í fyrra og spilaði feikivel. Líður greinilega vel í bláu treyjunni og gæti sprungið út í sumar.
Komnar:
Alda Ólafsdóttir frá Fjölni
Birna Kristín Eiríksdóttir frá Fylki (á láni)
Emma Björt Arnarsdóttir frá FH (á láni)
Eva Stefánsdóttir frá Val (á láni)
Eydís Arna Hallgrímsdóttir frá FH
Eyrún Vala Harðardóttir frá Stjörnunni
Jóhanna Melkorka Þórsdóttir frá Stjörnunni (á láni)
Katrín Ásta Eyþórsdóttir frá FH
Lilianna Marie Berg frá Bandaríkjunum
Mackenzie Elyze Smith frá Bandaríkjunum
Murielle Tiernan frá Tindastóli
Sara Svanhildur Jóhannsdóttir frá Breiðabliki (á láni)
Telma Steindórsdóttir frá HK
Thelma Lind Steinarsdóttir frá Stjörnunni (á láni)
Viktoria Rut Gokorian frá Fylki
Þórdís Embla Sveinbjörnsdóttir frá Víkingi R. (á láni)
Farnar:
Breukelen Lachelle Woodard í FH
Elaina Carmen La Macchia í Aftureldingu
Emilía Ingvadóttir í KR (á láni)
Eva Karen Sigurdórsdóttir í HK (var á láni)
Kristín Gyða Davíðsdóttir í Fjölni
Lilja Davíðsdóttir Scheving í Gróttu (var á láni)
Mist Elíasdóttir í Víking R.
Ólína Ágústa Valdimarsdóttir í Stjörnuna (var á láni)
Ylfa Margrét Ólafsdóttir í Álftanes
Hörkulið sem getur gert skemmtilega hluti
Óskar Smári Haraldsson, þjálfari Fram, er vægast sagt spenntur fyrir tímabilinu sem er framundan. Hann segir Fram vera með hörkulið sem getur gert flotta hluti í sumar.
„Okkur finnst spáin bara skemmtileg. Ágætis staðfesting á því að trú okkar í þjálfarateyminu endurspeglast í hinum þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar. Við teljum okkur vera með hörkulið sem getur gert skemmtilega hluti í sumar."
„Þegar ég lít til baka á tímabilið í fyrra að þá fyrst og fremst er maður stoltur af því tímabili. Við vorum nýliðar, lentum í ófáum skakkaföllum í gegnum sumarið og byrjuðum tímabilið mjög illa. Liðið þroskaðist hratt og small saman eftir fimm umferðir og á endanum vorum við með grunninn af okkar liði í dag sem gerði mjög vel. Stelpurnar urðu betri með hverjum leiknum síðasta sumar og við endum tímabilið mjög vel. Okkur var spáð falli en þegar fjórar umferðir voru eftir var það tölfræðilega ekki hægt og því mikill sigur fyrir Fram að liðið hafi staðist prófið og komið til baka eftir erfiða byrjun. Það var mjög skemmtilegt tímabil, en krefjandi var það og stelpurnar komu undan því sumri sem sigurvegarar að ná því lágmarks markmiði að tryggja veru okkar í deildinni."
„Við erum ánægð með undirbúningstímabilið. Stelpurnar hafa lagt alveg ofboðslega mikla vinnu á sig í sumar og teljum við okkur hafa sáð góðum fræjum í vetur fyrir sumarið. Atvinnumennirnir okkar komu fyrr en árið áður, og hafa þær fengið lengri aðlögunartíma hjá okkur sem er mjög mikilvægt. Heilt yfir erum við ánægð með hvar við stöndum viku fyrir fyrsta leik í deildinni."
Það hafa verið miklar breytingar hjá Fram í vetur.
„Það er óhætt að segja að það séu töluverðar breytingar hjá okkur. Við höfum bæði sótt ágætis magn af leikmönnum, breytt leikstílnum og fengið inn nýtt fólk í starfsteymið. Við erum ánægð með að halda þeim stelpum sem voru í láni hjá okkur í fyrra. Þær gerðu allar vel og var það lykillatriði að reyna halda þeim hjá okkur áfram. Við hefðum viljað hafa Breukelen Woodard áfram hjá okkur. Hún var besti leikmaður liðsins og einn besti leikmaður deildarinnar í fyrra. Á sama tíma er það ánægjulegt að sjá hana taka skref upp á við og fara í FH. Hún á það klárlega skilið að spila í efstu deild og halda allir Framarar mikið með henni í Bestu deildinni. Hún var okkar allra mikilvægasti leikmaður í fyrra, en í ár stígur einhver annar upp og verður það þess í staðinn."
„Aníta Lísa er líka horfin á braut og er mikill söknuður að hún sé ekki lengur með okkur. Hún sleppur að vísu ekki svo auðveldlega, ég er duglegur að hringja í hana og taka þessar akademísku 30-40 mínútur í símann. Aftur á móti hafa Pálmi Þór og Gareth Owens komið inn í þjálfarateymið og er ég gríðarlega ánægður með að fá þá tvo inn. Þeir koma með margt öflugt á borðið, og hollt fyrir stelpurnar að fá inn aðrar raddir."
„Einnig teljum við okkur hafa gert mjög vel á leikmannamarkaðinum. Við höfum fengið flesta þá leikmenn sem við settum púður í að fá og hafa þær komið mjög öflugar inn. Á sama tíma og við gerum vel þar, að þá fækkum við atvinnumönnum úr fjórum niður í þrjá, og erum með færri lánsmenn en frá því árinu áður. Hópurinn er ekki jafn stór og í fyrra, en við teljum hann gæðameiri og töluvert meiri samkeppni í hverri stöðu en fyrir ári síðan."
„Ég tel deildina vera töluvert jafnari en fyrir ári síðan. Það eru flest lið með að lágmarki tvo til þrjá atvinnumenn í sínum liðum og er verið að leggja mikla vinnu í hvert og eitt lið. Þetta verður stórskemmtileg deild þar sem ég tel alla geta unnið alla og við munum sjá mjög líklega svipað og í 2. deild í fyrra – fáar umferðir eftir en mörg lið sem verða enn í baráttunni að fara upp í efstu deild. Við höfum farið yfir okkar markmið og við ætlum okkur fyrst og fremst að gera betur en í fyrra. Svo erum við með megin og draumamarkmið sem liðið heldur út af fyrir sig. Eins klisjukennt og það hljómar að þá er það samt bara staðreynd – við munum fara inn í hvern einasta leik til þess að sækja þrjú stig."
Að lokum sagði Óskar:
„Íslensk kvennaknattspyrna er í mikilli sókn. Ég hvet fólk til að taka þátt í þeirri sókn og fari á völlinn í sumar! Alveg sama hvort þú sért aðstaðandi, stuðningsmaður eða hlutlaus áhorfandi – farðu á völlinn í sumar í Lengjudeildinni. Lambhagavöllur, Hásteinsvöllur, Kórinn eða Safamýrin - skiptir í raun ekki máli hvaða völlur það er - það verður spilaður skemmtilegur fótbolti í Lengjudeildinni. Deildin verður stórskemmtileg, fullt af hæfileikaríkum leikmönnum í hverju einasta liði og ég held að það muni enginn sjá eftir því að fara á völlinn í sumar. Áfram íslensk knattspyrna og áfram Fram!"
Fyrstu þrír leikir Fram:
6. maí, Fram - ÍR (Lambhagavöllurinn)
14. maí, Fram - Selfoss (Lambhagavöllurinn)
23. maí, ÍA - Fram (Akraneshöllin)