Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
banner
   þri 20. júní 2017 17:20
Þórður Már Sigfússon
Björn Bergmann sigrar Noreg í annað sinn
Björn Bergmann Sigurðarson.
Björn Bergmann Sigurðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir fimm árum síðan var Björn Bergmann Sigurðarson besti leikmaðurinn í norsku úrvalsdeildinni. Gamlar knattspyrnukempur og knattspyrnusérfræðingar kepptust við að ausa hann lofi og vonbrigðin yfir því að hann væri ekki norskur ríkisborgari leyndu sér ekki. Svo fór að hann var seldur frá Lilleström til Wolves í Englandi.

Hins vegar tók að halla undan fæti hjá Skagamanninum eftir vistaskiptin og liðu nokkur ár þar sem ferillinn virtist vera að fjara út. Bekkjarseta hjá Úlfunum, mislukkaður lánssamningur í Kaupmannahöfn og áhugaleysi gagnvart íslenska landsliðinu sýndi fram á að ekki var allt með felldu.

Í fyrra urðu þó vatnaskil þegar Ole Gunnar Solskjær fékk Björn til að ganga til liðs við Molde í annað sinn. Hann hafði spilað sem lánsmaður hjá félaginu 2014 og þar á bæ vissu menn um gríðarlega hæfileika Björns. Þó vissulega hefði hann farið sparlega með þá síðustu ár.

Til að gera langa sögu stutta er ferill Björns kominn í hring. Hann er aftur byrjaður að dómínera í Noregi og þar halda knattspyrnuáhugamenn oft ekki vatni yfir spilamennsku framherjans knáa.

Og aftur eru Norðmenn farnir að lýsa yfir vonbrigðum með þjóðerni leikmannsins. „Hvað við gæfum fyrir að eiga leikmann eins og hann,” ku heyrast oft á knattspyrnuvöllum þar sem Björn leikur listir sínar.

Þegar hann skoraði glæsilegt mark gegn Stabæk í síðasta mánuði minntist íþróttablaðamaður Dagbladet sérstaklega á yfirvegun og hans knattleikni. „Hlaupið og afgreiðslan minnti dálítið á Kaká þegar hann var upp á sitt besta,” stóð í umfjöllun blaðsins.

Marius Skjelbæk, knattspyrnusérfræðingur TV2, er síðan í engum vafa um gæði Skagamannsins.

„Björn Bergmann Sigurðarson er besti leikmaðurinn í norsku úrvalsdeildinni á þessum tímapunkti. Hann þyrfti að vera norskur. Stórkostlegur leikmaður,” sagði Skjelbæk eftir 3-0 sigur Molde gegn Tromsö á sunnudaginn.
Athugasemdir
banner
banner
banner