Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fös 01. janúar 2021 17:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fimm hápunktar frá 2020 í kvennaboltanum
Íslenska landsliðið fagnar marki.
Íslenska landsliðið fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árið 2020 er búið og sem betur fer segja sumir. En árið var mjög flott í kvennaboltanum á Íslandi.

Hlaðvarpsþátturinn Heimavöllurinn tók saman fimm hápunkta frá árinu í kvennaboltanum.

Sara íþróttamaður ársins, Elísabet þjálfari ársins og kvennalandsliðið lið ársins
Í vikunni var Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði kvenna, kjörin íþróttamaður ársins með fullt hús stiga. Elísabet Gunnarsdóttir var kjörin þjálfari ársins og kvennalandsliðið í fótbolta var valið lið ársins. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni þar sem konur hreppa öll þrjú verðlaunin.

EM sætið tryggt
Ísland tryggði sér sæti á EM sem fram fer í Englandi. Stelpurnar okkar þurftu ekki á umspili að halda og fara beint á mótið.

Sara vann Meistaradeildina
Sara Björk Gunnarsdóttir varð síðasta sumar annar Íslendingurinn til að vinna Meistaradeildina og fyrsta konan. Hún var frábær í úrslitaleiknum gegn sínum gamla félagi, Wolfsburg, og skoraði þriðja markið í 3-1 sigri.

Árangur Elísabetu í Svíþjóð
Elísabet Gunnarsdóttir gerði frábæra hluti með Kristianstad í Svíþjóð. Elísabet hefur þjálfað Kristianstad í Svíþjóð frá 2009 en á síðasta ári náði liðið sínum besta árangri í sögunni. Kristianstad hafnaði í þriðja sæti og mun spila í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Elísabet var valin þjálfari ársins í bæði Svíþjóð og á Íslandi, og fékk hún einnig heiðursverðlaun fyrir sitt framlagt til kvennaboltans í Svíþjóð.

Magnað ár Ingibjargar í Noregi
Landsliðsmiðvörðurinn Ingibjörg Sigurðardóttir átti magnað ár í Noregi með Vålerenga. Hún varð bæði deildar- og bikarmeistari með Vålerenga, ásamt því að hún var valin besti leikmaður deildarinnar.

Hér að neðan má hlusta á Heimavöllinn en þar var meðal annars viðtal við Ingibjörgu.
Áramótabomba Heimavallarins - Glerþök mölvuð
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner