Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 01. maí 2021 21:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Flott úrslit fyrir Leikni - Fyrsta mark Matta í tíu ár
Flott úrslit fyrir Leikni.
Flott úrslit fyrir Leikni.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Matthías Vilhjálmsson.
Matthías Vilhjálmsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH er á toppnum með Val.
FH er á toppnum með Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nýliðar Leiknis úr Breiðholti gerðu sér lítið fyrir í kvöld og sóttu stig í Garðabæinn gegn Stjörnunni. Það voru tveir leikir að klárast í Pepsi Max-deildinni núna fyrir stuttu.

Stjörnumenn voru mikið sterkari í leiknum en Leiknismenn sýndu gríðarlega baráttu og náðu að halda leiknum í 0-0 allan tímann. Það er gríðarlega mikið hjarta í þessu Leiknisliði, það er augljóst mál.

Stjörnumenn pressuðu allan leikinn en náðu ekki að finna glufurnar. Emil Atlason kom boltanum í netið í seinni hálfleik en það var réttilega dæmd hendi á Hilmar Árna Halldórsson, fyrrum Leiknismann, í aðdragandanum.

Á 86. mínútu fór rautt spjald á loft. „Leiknismenn negla boltanum upp. Einar Karl með hræðileg mistök og Sólon Breki sleppur einn í gegn, og Einar Karl brýtur á honum og verðskuldar beint rautt," skrifaði Anton Freyr Jónsson í beinni textalýsingu.

Sævar Atli Magnússon, fyrirliði Leiknis, hefði getað skorað sigurmarkið undir lokin þegar hann komst í gegn en Haraldur Björnsson var fljótur af línunni og lokaði vel. Lokatölur í þessum leik, 0-0.

Nýliðar Leiknis eru komnir með sitt fyrsta stig í sumar sem er gleðiefni fyrir þá. Þetta eru ekki góð úrslit fyrir Stjörnuna sem stefna á að vera í titilbaráttunni eins og alltaf.

Matti Villa skoraði í endurkomunni
Í Árbænum var það FH sem tók stigin þrjú og skellti sér á toppinn með Valsmönnum.

FH fékk vítaspyrnu á 24. mínútu leiksins þegar Ólafur Kristófer Helgason, markvörður Fylkis, braut á Jónatan Inga Jónssyni. Þórir Jóhann Helgason átti frábæra sendingu inn fyrir vörnina á Jónatan og Ólafur braut á honum. Steven Lennon fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi.

Rúmum tíu mínútum síðar dró til tíðinda þegar Unnar Steinn Ingvarsson fékk að líta rauða spjaldið í sínum fyrsta leik í Pepsi Max-deildinni. Hann fékk fyrra gula spjald sitt fyrir brot á Herði Inga Gunnarssyni á 34. mínútu og á 36. mínútu var hann rekinn af velli þegar hann virtist fara með höndina á undan sér upp í skallabolta. Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, mat það alla vega þannig og vísaði Unnari út af.

Það voru um 90 sekúndur á milli brotanna tveggja. Unnar Steinn er efnilegur miðjumaður sem kom til Fylkis frá Fram eftir síðustu leiktíð.

Í byrjun seinni hálfleiks skoraði Matthías Vilhjálmsson annað mark FH. Hans fyrsta mark í efstu deild á Íslandi í tíu ár. Hans fyrsti leikur í efstu deild á Íslandi í tíu ár einnig. Markið kom eftir frábæra sendingu Þóris Jóhanns.

FH sigldi sigrinum heim þægilega eftir það en Fylkir sýndi góða baráttu. „Þrátt fyrir að vera manni færri verður að hrósa Fylki fyrir þeirra baráttu í þessum leik," skrifaði Stefán Marteinn Ólafsson í beinni textalýsingu.

Hægt er að skoða textalýsingar úr báðum leikjum hér að neðan.

Fylkir 0 - 2 FH
0-1 Steven Lennon ('25 , víti)
0-2 Matthías Vilhjálmsson ('48 )
Rautt spjald: Unnar Steinn Ingvarsson, Fylkir ('36)
Lestu nánar um leikinn

Stjarnan 0 - 0 Leiknir R.
Rautt spjald: Einar Karl Ingvarsson, Stjarnan ('86)
Lestu nánar um leikinn

Önnur úrslit í dag
Pepsi Max-deildin: Jafntefliskóngarnir byrja á jafntefli
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner