Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 03. júní 2021 21:11
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Lengjudeildin: Fjölnir og Þróttur komu til baka úr 2-0
Lengjudeildin
Fjölnir er áfram í öðru sæti.
Fjölnir er áfram í öðru sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sam Ford bjargaði Þrótti.
Sam Ford bjargaði Þrótti.
Mynd: Þróttur R.
Aron Jó var hetja Grindavíkur.
Aron Jó var hetja Grindavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það fóru þrír leikir fram í næst efstu deild karla, Lengjudeildinni, í kvöld og það var dramatík að venju.

Í Mosfellsbæ tóku heimamenn í Aftureldingu á móti Fjölni, og skiptust liðin á jafnan hlut.

Elmar Kári Enesson Cogic kom Aftureldingu yfir eftir mistök í vörn Fjölnis. Heimamenn voru þéttir fyrir og þeir komust svo í 2-0 um miðbik seinni hálfleiks. „GEGGJUÐ SPYRNA FRÁ PEDRO Á FJÆRSTÖNG OG ÞAR ER GEORG MÆTTUR!" skrifaði Þorgeir Leó Gunnarsson í beinni textalýsingu þegar Georg Bjarnason skoraði.

Valdimar Ingi Jónsson minnkaði muninn fyrir gestina á 86. mínútu og í uppbótartíma fékk Fjölnir vítaspyrnu. Jóhann Árni Gunnarsson fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi.

Þar við sat og lokatölur 2-2. Grátlegt fyrir Aftureldingu sem er í níunda sæti með fimm stig en Fjölnir er áfram í öðru sæti með tíu stig. Fjölnismenn unnu fyrstu þrjá leiki sína í mótinu.

Á Seltjarnarnesi náði Þróttur að koma til baka á síðasta stundarfjórðungi leiksins gegn Gróttu. Á tímabili leit út fyrir að Grótta myndi hoppa upp fyrir Fjölni í öðru sæti.

Pétur Theódór Árnason hefur farið þetta tímabil mjög vel af stað og skoraði hann sitt áttunda mark í fimm leikjum á sjöundu mínútu í kvöld. Björn Axel Guðjónsson kom Gróttu í 2-0 um miðbik fyrri hálfleiks og var staðan 2-0 í hálfleik.

Á 74. mínútu dró til tíðinda. „Atli á skot að marki og Halldór brýtur í teignum," skrifaði Hafþór Bjarki Guðmundsson í beinni textalýsingu. Þróttur fékk víti og Halldór Kristján Baldursson fékk að líta rauða spjaldið. Hákon Rafn Valdimarsson varði víti Sam Ford, en sóknarmaður Þróttar fylgdi eftir og skoraði.

Rauða spjaldið breytti leiknum og náði Þróttur að jafna metin. Þar var aftur á ferðinni Sam Ford, beint úr aukaspyrnu.

Lokatölur 2-2 og er þetta annar leikurinn í röð þar sem Grótta tapar niður forystu. Þeir voru 3-0 yfir gegn Selfoss í síðustu umferð en enduðu á að gera 3-3 jafntefli. Grótta er í fjórða sæti með átta stig. Þróttur er í tíunda sæti með fjögur stig.

Grindavík vann ÍBV í fyrstu umferð en tapaði svo tveimur í röð. Þeir eru núna komnir í þriðja sæti eftir tvo sigra í röð.

Grindvíkingar tóku á móti Selfossi í kvöld og unnu 1-0. „Tekur þríhyrning við vinstra horn vítateigs og tekur eina snertingu áður en hann setur boltann milli fóta Stefáns í marki gestanna," skrifaði Sverrir Örn Einarsson þegar Aron Jóhannsson skoraði sigurmark Grindavíkur.

Það var erfitt að spila í vindinum í Grindavík. Selfoss er í 11. sæti, fallsæti, með fjögur stig.

Grótta 2 - 2 Þróttur R.
1-0 Pétur Theódór Árnason ('7 )
2-0 Björn Axel Guðjónsson ('28 )
2-1 Samuel George Ford ('75 , víti)
2-2 Samuel George Ford ('84 )
Rautt spjald: Halldór Kristján Baldursson , Grótta ('74)
Lestu nánar um leikinn

Grindavík 1 - 0 Selfoss
1-0 Aron Jóhannsson ('63 )
Lestu nánar um leikinn

Afturelding 2 - 2 Fjölnir
1-0 Elmar Kári Enesson Cogic ('7 )
2-0 Georg Bjarnason ('65 )
2-1 Valdimar Ingi Jónsson ('86 )
2-2 Jóhann Árni Gunnarsson ('90 , víti)
Lestu nánar um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner