Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 06. september 2021 14:18
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fundaði með Amöndu og Andra - „Setti spilin á borðið"
Icelandair
Amanda í leik með U17 landsliði kvenna.
Amanda í leik með U17 landsliði kvenna.
Mynd: Getty Images
Amanda er á mála hjá Vålerenga, meistaraliðinu í Noregi.
Amanda er á mála hjá Vålerenga, meistaraliðinu í Noregi.
Mynd: Vålerenga
Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Amanda Andradóttir var valin í landsliðshóp Íslands í fyrsta sinn í dag er hópurinn var tilkynntur fyrir fyrsta leikinn í undankeppni HM gegn Hollandi.

Það hefur verið nokkuð verið kallað eftir vali Amöndu í hópinn þar sem hún hefur verið að spila, og skora, með meistaraliði Vålerenga í Noregi.

Amanda getur valið að spila fyrir bæði Ísland og Noreg. Faðir hennar er íslenskur, fyrrum landsliðsmaðurinn Andri Sigþórsson, en móðir hennar er norsk. Hún er uppalin á Íslandi og spilaði í yngri flokkunum með Víkingi og Val.

Hún var á dögunum valin í U19 landslið Noregs en svo var hennar að velja á milli, þar sem hún var líka valin í A-landslið Íslands. Hún valdi Ísland.

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, var spurður að því hvernig ferlið var fyrst hún var valin í U19 landslið Noregs fyrst.

„Við ætluðum að kynna hópinn á föstudag en svo var ég með Covid og það frestaðist. Við vorum búin að velja hana í hópinn fyrir þetta verkefnið og undirbúa það allt saman. Þegar það kom í ljós að hún var líka valin í norska U19 landsliðið, þá þurfti hún bara að taka ákvörðun um það sem hún vildi gera," sagði Þorsteinn.

Hann var spurður að því hvernig það hefði gengið að sannfæra hana. „Ég átti fund með pabba hennar. Ég ætlaði reyndar að fara út, hitta hana og horfa á leik með henni í byrjun ágúst en það er víst eitthvað í heiminum sem truflaði það. Ég hætti við það allt saman. Ég átti svo fund með pabba hennar 9. ágúst klukkan tíu. Ef þið viljið fá sannanir, þá held að það séu til öryggismyndavélar hérna," sagði Steini léttur.

„Þá ræddi ég málin og fór yfir hlutina með honum. Ég setti spilin á borðið eins og við lögðum planið upp með hana. Svo þegar það kemur í ljós að Noregur velur hana líka, þá ræddi ég við hana og sagði henni mína hlið á málum, mína skoðun og framtíðarsýn. Út frá því tekur hún ákvörðun."

Þorsteinn segist engu geta lofað með spiltíma fyrir hana í komandi verkefni. „Það kemur bara í ljós. Sem fótboltaþjálfari notar þú aldrei orðið loforð."

Að lokum var hann spurður að því hversu mikið hann hefur séð hana spila og einnig var hann spurður að því hversu góð hún getur orðið.

„Ég held að ég sé búinn að sjá alla leikina nema bikarleikinn um daginn. Ég held ég sé búinn að sjá alla aðra leiki sem hún hefur spilað (á tímabilinu). Amanda getur orðið virkilega góð; hún er með flottar spyrnur, góðan leikskilning og hún er að þróast og þroskast vel. Ég horfði á leikina hjá henni í Danmörku og munurinn er mikill frá því hún kom til Noregs. Hún er í góðri framför og vonandi heldur hún áfram að bæta sig," sagði Steini.
Athugasemdir
banner