Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 06. nóvember 2020 16:23
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Jóhann Laxdal leggur skóna á hilluna
Jóhann á góðri stundu í sumar.
Jóhann á góðri stundu í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við hlið Nemanja Vidic. Stjarnan mætti Inter árið 2014 í forkeppni Evrópudeildarinnar.
Við hlið Nemanja Vidic. Stjarnan mætti Inter árið 2014 í forkeppni Evrópudeildarinnar.
Mynd: Twitter
Á orðunum „Jóhann Laxdal kveður," hefst færsla Stjarnan FC á Facebook. Stjörnumaðurinn Jóhann Laxdal hefur lagt skóna á hilluna.

Jóhann er þrítugur, uppalinn Stjörnumaður, sem lék oftast á sínum ferli í stöðu bakvarðar. Hann lék 241 leik fyrir Stjörnuna og skoraði fjórtán mörk. Hann var hluti af liði Stjörnunnar sem var Íslandsmeistari árið 2014 og lék í bikarúrslitaleiknum 2018 þegar Stjarnan varð Mjólkurbikarmeistari. Í sumar tók hann þátt í sjö deildarleikjum og þremur bikarleikjum með Stjörnunni.

Jóhann lék á sínum ferli einn A-landsleik og lék hluta af leiktíðinni 2014 hjá norska félaginu Ull/Kisa. Jóhann lék þá skv. vef KSÍ tólf Evrópuleiki með uppeldisfélagi sínu. Jóhann segir, eins og lesa má hér að neðan, að ákvörðunin hafi verið erfið.

Facebook-færsla Stjarnan FC:
Jóhann Laxdal kveður

Við kveðjum eitt stærsta Stjörnuhjartað í dag, Jóhann Laxdal sem hefur ákveðið að leggja skónna á hilluna. Jóhann hefur leikið með félaginu alla sína tíð og síðustu 13 ár þar sem hann hefur spilað 241 leik fyrir meistaraflokk karla og skorað í þeim 14 mörk.
Við þökkum Jóhanni að sjálfsögðu fyrir allt sitt framlag í gegnum árin og hlökkum til að heyra í honum stýra stuðningnum úr stúkunni.

„Það er mikil sorg í hjörtum okkar Stjörnumanna að kveðja einn mesta liðsmann okkar frá stofnun félagsins, mann sem var tilbúinn í hvað sem er og var í huga margra holdgervingur baráttu og vilja okkar til að ná lengra. Fordæmið sem hann setti inná vellinum var til eftirbreyttni og nú er það annarra leikmanna að taka við því hlutverki, þó fótsporin séu stór sem þarf að fylla. Það hefur verið heiður að fylgjast með Jóa öll þessi ár, baráttunni, kraftinum og viljanum til að ná lengra en við höfðum áður upplifað. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka Jóhanni Laxdal persónulega fyrir hans ómetanlega framlag, hans verður sárt saknað af vellinum en þekkjandi manninn veit ég að hann mun fyrr en varir leggja sitt af mörkum til frekari uppbyggingar félagsins. Takk Jói#4", segir Helgi Hrannarr formaður m.fl ráðs.

Yfirlýsingu Jóhanns má lesa hér f. neðan


Hver byrjun á sinn enda

Eftir mikla umhugsun hef ég ákveðið að leggja skóna á hilluna. Þetta er erfið ákvörðun, en ég trúi því að þetta sé rétta skrefið fyrir mig á þessum tímapunkti.

Ég vil þakka því yndislega fólki sem ég hef kynnst í gegnum öll mín ár í fótbolta.

Stjarnan á og hefur átt mitt hjarta síðan ég man eftir mér og gæti ég ekki verið stoltari að hafa tekið þátt í uppbyggingu félagsins.
Félagið hefur gefið mér svo margt og ég er þakklátur fyrir öll þau tækifæri sem ég hef fengið. Ég tek með mér svo margar góðar minningar og sterk vinasambönd.

Það er margt sem ég á eftir að sakna við Stjörnuna og eitt af því er svo sannarlega að spila fyrir framan Silfurskeiðina. Ég mun taka við nýju hlutverki sem stuðningsmaður á næsta ári.

Skíni Stjarnan.
Jóhann Laxdal
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner