Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   þri 09. apríl 2019 20:58
Arnar Helgi Magnússon
Meistaradeildin: Liverpool í frábærri stöðu - Vítaklúður Aguero dýrkeypt
Firmino og Keita fagna saman í kvöld
Firmino og Keita fagna saman í kvöld
Mynd: Getty Images
Liðsmenn Tottenham fagna marki Son
Liðsmenn Tottenham fagna marki Son
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Átta liða úrslit Meistaradeildarinnar hófust í kvöld með tveimur leikjum sem að fóru báðir fram á Englandi. Heimasigrar unnust í báðum leikjunum. Á Anfield tók Liverpool á móti Porto.

Naby Keita kom Liverpool yfir eftir tæplega fimm mínútna leik. Hann fékk þá boltann frá Roberto Firmino á góðum stað fyrir utan teig og setti hann snyrtilega í netið, með viðkomu í varnarmanni Porto.

Mo Salah fékk síðan dauðafæri þegar að hann komst einn inn fyrir vörn gestanna en setti boltann framhjá markinu. Þarna hefði Egyptinn átt að gera betur.

Það dugði Roberto Firmino ekki að leggja bara upp í fyrri hálfleik heldur tvöfaldaði hann forystu Liverpool á 25. mínútu þegar að hann setti boltann í netið af stuttu færi eftir sendingu frá Trent Alexander-Arnold. Staðan 2-0 í hálfleik, Liverpool í vil.

Sadio Mane setti boltann í markið í upphafi síðari hálfleiks en aðstoðardómarinn lyfti flagginu í þann mund sem að boltinn endaði í netinu. Það virtist réttur dómur, rangstaða.

Liverpool var með yfirhöndina í leiknum en bæði lið fengu tækifæri til þess að skora í síðari hálfleik. Það tókst ekki. Liverpool fer því með góða góða forystu til Portúgals en liðin mætast á nýjan leik í næstu viku.

Manchester City mistókst að skora útivallarmark
Tottenham dugði eitt mark til þess að leggja Englandsmeistara Manchester City af velli á glænýja leikvangi liðsins.

Manchester City fékk vítaspyrnu þegar tæpur stundarfjórðungur var liðinn af leiknum. Raheem Sterling átti þá skot í átt að marki sem að Danny Rose kastaði sér fyrir en hann fékk boltann í höndina.

Björn Kuipers, dómari leiksins, skoðaði atvikið nánar og dæmdi vítaspyrnu. Sergio Aguero fór á punktinn en lét Hugo Lloris verja frá sér. Afar dýrt fyrir City enda dauðafæri til að ná inn þessu mikilvæga útivallarmarki. Markalaust í hálfleik.

Harry Kane þurfti að fara meiddur af velli í upphafi síðari hálfleiks eftir að Fabian Delph steig ofan á hann þegar hann sparkaði í boltann. Óviljaverk. Áfall fyrir Tottenham ef að Kane verður frá næstu vikurnar.

Son Heung-min braut ísinn þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Hann fékk þá fasta sendingu frá Christian Eriksen sem að var á leiðinni útaf en Son gerði vel í að halda boltanum inná. Hann sneri síðan inn á völlinn og setti boltann framhjá Ederson í marki Manchester City. Frábærlega gert.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í London og því Tottenham sem að leiðir fyrir síðari leik liðanna á Etihad-vellinum.

Liverpool 2 - 0 Porto
1-0 Naby Keita ('5 )
2-0 Roberto Firmino ('26 )

Tottenham 1 - 0 Manchester City
0-0 Sergio Aguero ('13 , Misnotað víti)
1-0 Son Heung-Min ('78 )


Athugasemdir
banner
banner
banner