Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fim 09. júní 2022 21:41
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arnar: Ekki í boði að fara niður á þetta plan
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, ræddi við Viaplay eftir afskaplega dapran leik gegn San Marínó, versta landsliði í heimi. Hann sagðist sáttur með fyrri hálfleikinn en ekki þann seinni.

„Ég er sáttur með frammistöðuna í fyrri hálfleik. Mér fannst við fylgja leikplaninu ágætlega í fyrri hálfleik. Maður vill alltaf fá meira tempó. Við erum betri, erum með betri leikmenn og þá er hættan að detta niður á plan og þeirra tempó," sagði Arnar.

„Við skorum mark tiltölulega snemma og fáum fjögur góð færi þar fyrir utan. Við hefðum bara þurft að klára eitt af þeim færum og þá spilast leikurinn allt öðruvísi. Svo slökknar á okkur í seinni hálfleik og við erum ekki sáttir með frammistöðuna þar. Við verðum að læra af þessu, að það sé ekki í boði að fara niður á þetta plan."

Arnar var spurður hvort það hafi verið erfitt fyrir leikmenn að gíra sig upp í þennan leik, vináttulandsleik gegn slakasta landsliði í heimi.

„Ég held að hugarfarið hafi verið mjög gott hjá öllum en þetta er spurning um að klára mark númer tvö - líka til þess að slökkva á þeim. Þessar fyrstu 25-30 mínútur í seinni þá finna þeir að þeir geta skorað og það gefur þeim orku. Ég held að það hafi ekkert með hugarfarið að gera, þetta hefur með grunnvinnuna að gera... við þurfum að vera 100 prósent alltaf. Við lærum af þessu, en við erum ánægðir með sigurinn."

Arnar gerir skiptingar seint í leiknum. Það komu leikmenn úr Bestu deildinni inn í hópinn fyrir þennan leik og var planið að gefa þeim meiri tíma inn á vellinum en raun bar vitni.

„Ég vonaðist til þess að við gætum spilað þennan leik öðruvísi og lokað honum öðruvísi. Við erum að fylgjast með íslensku deildinni. Það skiptir í raun engu máli hvar menn eru að spila; ef þeir eiga skilið að vera í íslenska landsliðinu, þá veljum við þá," sagði Arnar en einhverjir hafa sett spurningamerki við það.

Næsti leikur er gegn Ísrael í Þjóðadeildinni á mánudagskvöld.
Athugasemdir
banner
banner