Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 01. júní 2022 12:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gagnrýnir Arnar harðlega - „Nóg að vera ungur og í erlendu félagsliði"
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Snær Þorvaldsson.
Ísak Snær Þorvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Lucas Guðjohnsen.
Andri Lucas Guðjohnsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór hefur lítið sem ekkert leikið með Venezia á Ítalíu.
Arnór hefur lítið sem ekkert leikið með Venezia á Ítalíu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikael Egill Ellertsson.
Mikael Egill Ellertsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórhallur Dan Jóhannsson.
Þórhallur Dan Jóhannsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórhallur Dan Jóhannsson, sem lék á sínum tvo landsleiki fyrir Ísland, gagnrýnir landsliðsval Arnars Þórs Viðarssonar harðlega í nýjasta þættinum af hlaðvarpinu Mín Skoðun sem Valtýr Björn Valtýsson stýrir.

Þórhallur finnst Arnar ekki vera að velja leikmenn eftir því hvernig þeir eru að spila. Er Ísak Snær Þorvaldsson, leikmaður Breiðabliks, nefndur í því samhengi. Þórhalli finnst skrýtið að Ísak, sem hefur verið besti leikmaður Íslandsmótsins til þessa, sé ekki í hópnum.

„Það er með hreinum ólíkindum með Arnar Þór að það sé nóg að vera ungur og í einhverju erlendu félagsliði til að komast í landsliðshópinn. Það eru vissulega leikmenn þarna eins og Ísak Bergmann, Hákon Arnar, Þórir og fleiri sem eiga svo sannarlega skilið að vera þarna. En það eru líka þarna leikmenn sem eru með áskrift að vera í hópnum hjá Arnari," sagði Þórhallur.

„Svo finnst honum skrýtið að hann nái engum árangri með þetta lið. Hann reyndi að fá Hólmar Örn (Eyjólfsson) til að spila aftur með landsliðinu. Þegar Hólmar var búinn að gefast upp á því að fá að spila fyrir hann, þá hætti hann. Þegar Arnar fattaði loksins að hann vantaði hafsent - og er með hafsent á besta aldri í Hólmari - þá fór hann og reyndi að selja honum hugmyndina hvað hann væri mikilvægur."

„Það eru leikmenn á Íslandi sem eru að standa sig virkilega vel. En þú ert með unga menn sem eru varla búnir að spila mínútur í vetur, þeir eru í landsliðshópnum. Þú ert með leikmann sem er varamaður í varaliðinu hjá félagsliðinu sínu, en þú ert ekki með Ísak Snæ."

Þar var Þórhallur að tala um Andra Lucas Guðjohnsen, sem er varamaður í varaliði Real Madrid. Hann er í hópnum eins og til að mynda Arnór Sigurðsson, Daníel Leó Grétarsson og Mikael Egill Ellertsson sem hafa lítið sem ekkert verið að spila með sínum félagsliðum.

„Hvort er betra fyrir leikmann sem er ekki að spila með félagsliði sínu að spila með U21 landsliðinu eða vera æfingakeila með A-landsliðinu?"

„Síðan meiðist Hólmbert. Hvern tekur hann þá inn? Bjarka (Stein Bjarkason) í staðinn fyrir Ísak. Ég fatta þetta ekki. Veldu þá bestu hverju sinni. Við þurfum árangur líka núna, ekki bara eftir þrjú ár eða fimm ár. Við þurfum að komast upp úr ruslflokki. Það er ekki verið að bæta neitt úr því núna. Hann er að velja einhverja sem honum þykir frábærir en það eru fullt af leikmönnum sem eru betri."

Bjarki Steinn er 22 ára gamall kantmaður sem byrjaði aðeins tvo leiki hjá félagi í C-deild á Ítalíu á leiktíðinni sem var að klárast, hann lék alls 213 mínútur í deild.

Þórhallur spyr af hverju Þorleifur Úlfarsson sé ekki valinn. „Hann er að byrja og skora út í Bandaríkjunum. Af hverju er hann ekki í A-landsliðinu?

Hann segir að það verði að velja bestu leikmennina. „Hann velur unga leikmenn sem eru þannig lagað ekki að gera neitt... ég veit ekki hvað þetta er hjá Arnari; af því að þú æfir með atvinnumannaliði, að þá eigir þú að vera betri en þeir sem eru að spila heima. Það er bara kjaftæði. Ef þú ert æfingakeila og horfir síðan á alla leikina, þá ertu ekki betri en leikmennirnir sem eru að spila heima. Hvað þurfa leikmenn á Íslandi að gera til að komast í A-landsliðið?"

„Ég skil valið á Hákoni, en ég skil ekki valið á Andra Lucasi og Mikael Agli. Ég er ekki að segja að þeir séu ekki frábærir, en hvað hafa þeir gert til að vera þarna? Bjarki er frábær leikmaður, en það hefði verið miklu betra fyrir hann að vera í U21 landsliðinu og spila þrjá leiki þar."

Hann velti því fyrir sér af hverju Damir Muminovic og Viktor Örn Margeirsson, varnarmenn Breiðabliks, væru ekki í hópnum fyrst það vantaði miðverði.

Þú ert að grínast?
Þórhallur hefur ekki mikla trú á Arnari sem landsliðsþjálfara, hvað þá eftir að hann heyrði það sem fram kom Fréttablaðinu í gær. Það er nú yfirleitt vaninn að KSÍ hefur samband við leikmenn með góðum fyrirvara og lætur þá vita að þeir séu í hóp fyrir komandi verkefni en það gleymdist þó að hafa samband við að minnsta kosti þrjá leikmenn fyrir núverandi verkefni.

Einnig sagði í fréttinni: „Heimildarmaður Fréttablaðsins segir að samskipti þjálfarateymis við leikmenn sem koma til greina í landsliðið séu lítil. Nánast engin samskipti eiga sér stað á milli verkefna og nú þegar valið er í hópinn eru nokkrir leikmenn sem lesa um það á vefmiðlum að krafta þeirra sé óskað í landsliðinu."

„Þú ert að grínast, er það ekki? Þetta er bara svona?" sagði Þórhallur þegar Valtýr las fyrir hann úr fréttinni.

„Hve lengi ætlar KSÍ að gefa þessu séns á meðan þetta er ekki að virka? ... Að leikmenn fái að vita það á fréttamiðlum að þeir séu valdir og að þjálfarar séu í sáralitlum samskiptum við leikmenn sína, það veit ekki á gott. Því miður. Þá verður ekki mikið að frétta í þessu landsliði á komandi mánuðum."

Eldri og reyndari leikmenn hafa ekki gefið kost á sér í síðustu verkefni; leikmenn eins og Alfreð Finnbogason, Jóhann Berg Guðmundsson og Guðlaugur Victor Pálsson. Þórhallur spyr sig hvort þessir leikmenn vilji spila fyrir Arnar.

„Heldurðu að eldri og reyndari leikmennirnir vilji ekki spila fyrir hann? Núna veit ég það ekki, ég er bara að velta því fyrir mér. Ég er búinn að heyra ýmislegt varðandi framkomu núverandi þjálfara við eldri leikmenn sem voru í hópnum... það getur vel verið að leikmennirnir vilji ekki spila fyrir hann."

Arnar hefur stýrt landsliðinu í eitt og hálft ár. Liðið hefur gengið í gegnum miklar breytingar síðan af ýmsum ástæðum og hefur árangurinn ekki verið góður. Bara hafa komið sigrar gegn Liechtenstein og Færeyjum frá því Arnar tók við.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hérna.

Fim 2. júní: 18:45 Ísrael - Ísland (Þjóðadeildin, Sammy Ofer Stadium)

Mán 6. júní: 18:45 Ísland - Albanía (Þjóðadeildin, Laugardalsvöllur)

Fim 9. júní: 18:45 San Marínó - Ísland (Vináttuleikur, San Marino Stadium)

Mán 13. júní: 18:45 Ísland - Ísrael (Þjóðadeildin, Laugardalsvöllur)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner