Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 10. maí 2022 20:59
Brynjar Ingi Erluson
England: Naumur sigur Liverpool á Aston Villa
Sadio Mané skoraði með laglegum skalla
Sadio Mané skoraði með laglegum skalla
Mynd: Getty Images
Joel Matip og Virgil van Dijk sáu um jöfnunarmarkið
Joel Matip og Virgil van Dijk sáu um jöfnunarmarkið
Mynd: Getty Images
Jürgen Klopp og Steven Gerrard á hliðarlínunni
Jürgen Klopp og Steven Gerrard á hliðarlínunni
Mynd: Getty Images
Aston Villa 1 - 2 Liverpool
1-0 Douglas Luiz ('3 )
1-1 Joel Matip ('6 )
1-2 Sadio Mane ('65 )

Liverpool vann Aston Villa, 2-1, á Villa Park er liðin mættust í 36. umferð ensku úrvalsdeildinnar í kvöld. Gestirnir þurftu heldur betur að hafa fyrir hlutunum.

Vörn Liverpool var út um allt í byrjun leiksins og opnuðust svæði fyrir heimamenn til að skapa sér færi og á 3. mínútu kom fyrsta markið.

Matty Cash fékk boltann vinstra megin við teiginn og kom hann með fyrirgjöf inn í teiginn. Kostas Tsimikas og Virgil van DIjk enduðu báðir í grasinu eftir samstuð við Ollie Watkins og náði Douglas Luiz skalla á markið. Alisson varði skallann en boltinn barst aftur á Luiz sem lagði hann í vinstra hornið.

Í byrjun sóknarinnar var Watkins í rangstöðu en VAR skoðaði það ekki og markið dæmt gott og gilt.

Liverpool jafnaði tæpum þremur mínútum síðar. Trent Alexander-Arnold tók aukaspyrnu frá hægri inn í teiginn og eftir darraðadans barst boltinn til Virgil van Dijk vinstra megin í teignum. Hann lét vaða en boltinn fór af Emiliano Martinez og til Joel Matip sem skoraði af stuttu færi.

Sadio Mané kom sér í gott færi nokkrum mínútum síðar eftir fyrirgjöf frá Tsimikas en skalli hans fór rétt framhjá markinu og stuttu síðar gat Danny Ings tekið forystuna fyrir Villa en hann, líkt og Mané, tókst ekki að stýra boltanum á markið.

Brasilíski markvörðurinn Alisson er strangtrúaður og getur hann þá að öllum líkindum þakkað guði sínum fyrir að hafa ekki fengið á sig mark á 23. mínútu. Fabinho lagði boltann til baka á Alisson sem ætlaði að hreinsa en boltinn fór í lappirnar á Watkins og aftur til markvarðarins sem náði að redda sér í tæka tíð.

Fabinho eins og svo margir aðrir í Liverpool-liðinu var að eiga erfiðan dag áður en hann meiddist eftir hálftíma leik. Jordan Henderson kom inná í hans stað. Þremur mínútum síðar skoraði Sadio Mané mark en það var dæmt af vegna rangstöðu.

Mané reyndist hetjan

Liverpool náði aðeins betri tökum á leiknum í síðari hálfleiknum og var töluvert meira með boltann. Alexander-Arnold átti skot rétt framhjá úr aukaspyrnu í upphafi hálfleiksins.

Tæpum tuttugu mínútum síðar kom svo sigurmark Liverpool þegar Luis Díaz fékk boltann vinstra megin og kom með fyrirgjöf inn í teiginn á Mané sem stýrði boltanum í netið. Lagleg afgreiðsla hjá Senegalanum.

Gestirnir reyndu að bæta við mörkum seinni hluta leiksins en þriðja markið kom aldrei. Danny Ings kom boltanum í netið undir lok leiks er hann kom boltanum undir Alisson en dæmt af vegna rangstöðu eftir að vörn Liverpool steig út á hárréttum tímapunkti.

Lokatölur 2-1 fyrir Liverpool sem fer upp að hlið Manchester City með 86 stig. City er með þrjá plús í markatölu á Liverpool og á leik inni. Aston Villa er áfram í 11. sæti með 43 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner