Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 10. júní 2022 08:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Matthías Örn mætir heimsmeistaranum í kvöld
Matthías Örn Friðriksson.
Matthías Örn Friðriksson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það verður stór stund í kvöld þegar Matthías Örn Friðriksson mun mæta heimsmeistaranum í pílukasti.

Matthías er fyrrum fótboltamaður en hann hefur síðustu ár gert frábærlega í pílukasti og er þrefaldur Íslandsmeistari í greininni.

Matthías lék með Þór og Grindavík á sínum ferli í fótboltanum. Hann spilaði með Grindavík í Pepsi-deildinni 2018 en eftir það fór fótboltinn til hliðar og þá gafst meiri tími í pílukastið.

Sjá einnig:
Matthías Örn hættur í fótbolta - Einbeitir sér að pílukasti

Matthías hefur verið að ná stórkostlegum árangri til þessa og í kvöld mun hann ná sögulegum áfanga er hann verður fyrsti íslenski þáttakandinn til að taka þátt á PDC Nordic Masters í Kaupmannahöfn.

Um er að ræða stórt pílumót þar sem margir bestu pílukastarar heims taka þátt; má þar nefna sjálfan heimsmeistarann Peter Wright.

Það var dregið á miðvikudag og varð raunin sú að Matthías dróst gegn heimsmeistaranum.

Hann mun leika gegn honum klukkan átta að íslenskum tíma í kvöld og verður hægt að fylgjast með viðureigninni á Viaplay. Sigurvegarinn fer áfram í átta-liða úrslitin.

Það verður gífurlega erfitt fyrir Matthías að komast áfram en það er ekkert ómögulegt í þessu.


Athugasemdir
banner
banner