Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 16. maí 2018 19:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Eiður Smári: Fannst ég oft rosalega einn í landsliðinu
Icelandair
Eiður eftir síðasta landsleikinn. Hann spilaði 88 landsleiki og skoraði 26 mörk. Hann er enn markahæsti leikmaðurinn í sögu íslenska landsliðins.
Eiður eftir síðasta landsleikinn. Hann spilaði 88 landsleiki og skoraði 26 mörk. Hann er enn markahæsti leikmaðurinn í sögu íslenska landsliðins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður var landsliðsfyrirliði um nokkurt skeið.
Eiður var landsliðsfyrirliði um nokkurt skeið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður í baráttu við Paul Pogba á EM.
Eiður í baráttu við Paul Pogba á EM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður Smári Guðjohnsen spilaði 88 landsleiki fyrir Íslands hönd. Eiður lék sinn fyrsta landsleik árið 1996 þegar hann kom inn á fyrir föður sinn, Arnór Guðjohnsen, í vináttulandsleik gegn Eistlandi í Tallinn. Sú skipting vakti heimsathygli enda ekki á hverjum degi þar sem sonur kemur inn á fyrir föður sinn á eins stóru sviði og um var að ræða þarna.

Eftir að hafa leikið fyrir Ísland í 20 ár lagði Eiður Smári landsliðskóna á hilluna eftir EM 2016 í Frakklandi þar sem Ísland komst í 8-liða úrslit. Eiður kom við sögu í lokaleiknum gegn Frakklandi og fékk að spila með fyrirliðabandið síðustu mínúturnar.

Eiður var lengi vel fyrirliði landsliðsins og langbesti leikmaður þess. Í þáttunum Gudjohnsen í Sjónvarpi Símans lýsir hann tímanum þegar Ísland var með eitt slakasta landslið Evrópu. Eiður var á þessum tíma að spila með Chelsea og Barcelona.

„Landsliðið eins og við þekkjum það í dag er allt öðruvísi en það sem ég upplifði framan af. Það var alltaf gaman, brjóta aðeins upp og hitta strákanna. En við vorum ekkert sérstaklega góðir. Ég segi alveg eins og er, mér fannst ég oft vera rosalega einn," segir Eiður.

„Mér fannst svo mikið mæða á mér. Ég var að spila með stærsta liðinu og var stærsta nafnið þannig séð, ég átti að mæta í öll viðtöl og gefa svo mikið af mér. Ef við áttum ekki góða leiki þá fékk ég mestu gagnrýnina. Þetta var gaman og stundum leiðinlegt."

„Ég elska Ísland"
Hjá Chelsea spilaði Eiður undir stjórn Jose Mourinho. Þar sem Ísland var ekki með gott landslið á þessum tíma þá vildi Mourinho, sem og aðrir þjálfarar sem Eiður spilaði hjá, helst að hann færi ekki í landsliðsverkefni, sem hann þó gerði.

„Við vorum ekki búnir að vinna okkur inn þá virðingu sem landsliðið í dag hefur gert," segir Eiður.

Eiður kveðst alltaf hafa gert sitt besta fyrir landsliðið. Hann spilaði til 37 ára aldurs með landsliðinu. „Það héldu allir að ég myndi spila með landsliðinu til 27 ára aldurs, en ég elska Ísland."

Rætt um að sniðganga landsliðið
Áhuginn á íslenska landsliðinu í dag er gríðarlegur. Eftirspurnin er ótrúleg og í plönunum er að byggja nýjan og stærri þjóðarleikvang til þess að koma fleira fólki að.

Hins vegar, þegar Eiður var upp á á sitt besta var áhuginn ekki mikill. Það var nánast aldrei uppselt á landsleiki á Laugardalsvelli og stuðningurinn var ekki mikill.

Eiður segist hafa fundið fyrir því að fólk var beðið um að sniðganga landsliðið hér áður fyrr.

„Stemningin hjá fólki var þannig að þeim fannst þetta ekki spennandi, þeim fannst við ekki koma heilshugar í leikina og ég hlustaði á einhvern segja að fólk ætti að sniðganga landsleikinn, ég hugsaði 'út í hvað erum við komin?'."

„Stuðningsmenn styðja þegar vel gengur og illa gengur, ekki bara í velgengninni," segir Eiður.

„Gaui hefði tekið af mér hausinn"
Eiður spilaði sinn fyrsta A-landsleik á Íslandi árið 1999 gegn Andorra, í 3-0 sigri. Eiður skoraði þar sitt fyrsta landsliðsmark.

Í lokaþætti Gudjohnsen, þar sem farið er yfir landsliðsferil hans, segir hann frá skemmtilegu atviki sem gerðist áður en hann kom inn á sem varamaður í þeim leik.

„Ég var alveg að míga á mig," segir Eiður og er þar að segja frá því er hann var að hita upp. „Ég er gjörsamlega í spreng."

Eiður ákvað þá að létta af sér á meðan hann hitaði upp.

„Hvað átti ég að gera? Gaui (Þórðar, þjálfari) hefði tekið af mér hausinn ef ég hefði farið inn í klefa."

„Svo fór ég að grenja"
Eitt alfrægasta augnablik Eiðs Smára með íslenska landsliðinu var eftir seinni leikinn gegn Króatíu í umspilinu fyrir HM 2014. Ísland hafði tapað 2-0 á slæmu kvöldi í Zagreb. Eiður mætti í viðtal eftir leik við Hauk Harðarson á RÚV og tilfinningarnar báru hann ofurliði.

Eiður grét í viðtalinu þar sem hann hélt að hann hefði verið að spila sinn síðasta landsleik.

Annað kom hins vegar á daginn, Eiður sneri aftur í undankeppni EM og hjálpaði landsliðinu að komast þangað. Hann spilaði svo á EM, sínu fyrsta og eina stórmóti.

Um þetta augnablik, er hann grét, segir Eiður:

„Maður hefur nú tilfinningar, það er ekki eins og ég sé vélmenni. Þetta var agalegt móment, þetta var agalegt. Það helltist bara yfir mig. Tilfinningin var sú að þetta væri kannski síðasti landsleikurinn minn. Svo fór ég að grenja."

„Ég hefði örugglega verið bitur og ömurlegur ef ég hefði ekki farið á EM," segir Eiður.

Myndband af þessu er hér að neðan.



Eiður er enn í dag markahæsti leikmaðurinn í sögu íslenska landsliðsins með 26 mörk. Eiður Smári hefur farið í gegnum góða og slæma tíma með landsliðinu eins og farið er yfir í þættinum, en hann er líklega okkar mesta fótboltagoðsögn.

Í sumar mun Eiður fylgjast með frá hliðarlínunni þegar strákarnir okkar spila á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi. Eiður verður einn sérfræðinga RÚV í kringum mótið og gaman verður að fylgjast með honum í því hlutverki.

Smelltu hér til að lesa leikskýrsluna frá líklega versta lansleik sem Eiður spilaði í.

Smelltu hér til að lesa leikskýrsluna frá líklega besta landsleik sem Eiður spilaði í.

Smelltu hér til að lesa leikskýrsluna frá síðasta landsleiknum sem Eiður spilaði í.


Athugasemdir
banner
banner
banner