„Það eru forréttindi fyrir mig sem Chelsea stuðningsmann að hafa haft tvær Chelsea goðsagnir sem þjálfara; Eið Smára og Tore," sagði Hörður Ingi Gunnarsson, leikmaður Sogndal, í Noregi í samtali við Fótbolta.net fyrr í þessari viku.
Tore André Flo er þjálfari Sogndal, en hann lék lengi vel með enska stórliðinu Chelsea.
„Hann er þvílíkt stór í Noregi, hann er nánast eins og Billy Joel. Fólk stoppar hann út um allt þegar við erum í göngutúrum fyrir leiki. Hann kemur inn með mikla reynslu og þekkingu á leiknum inn í þetta."
„Hann er frá litlum bæ undir fjallinu þarna. Hann spilaði fyrir Sogndal í upphafi ferilsins og ég held að hann hafi líkað endað þar. Hann er mikil goðsögn hjá félaginu."
„Það er ákveðin lyftistöng fyrir bæinn að hafa svona stórt nafn þarna," segir Hörður en Sogndal er ekki stór bær. Þar búa um tólf þúsund manns.
Athugasemdir