Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   fös 17. apríl 2020 19:56
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hvað á Ancelotti að gera við Gylfa? - „Fíllinn í herberginu"
Gylfi í leik gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni.
Gylfi í leik gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni.
Mynd: Getty Images
Gylfi og Ancelotti ræða málin.
Gylfi og Ancelotti ræða málin.
Mynd: Getty Images
Eina mark Gylfa í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu kom gegn West Ham í október á síðasta ári. Það var glæsilegt mark.
Eina mark Gylfa í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu kom gegn West Ham í október á síðasta ári. Það var glæsilegt mark.
Mynd: Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson, dýrasti leikmaður í sögu Everton, hafði ekki átt sitt besta tímabil áður en hlé var gert á fótbolta víða vegna kórónuveirunnar. Tölfræði Gylfa er slök: 26 deildarleikir, eitt mark og tvær stoðsendingar.

Á síðasta tímabili tókst honum að skora 13 mörk og leggja upp sex, en á þessu tímabili hefur hann ekki náð að fylgja því eftir.

Þeir Patrick Boyland og Tom Worville skrifa athyglisverða grein í The Athletic um það hvað Carlo Ancelotti, stjóri Everton, eigi að gera við Gylfa svo hann nái sem mest út úr honum.

Ancelotti hefur spilað 4-4-2 frá því hann tók við Everton, en það er líka kerfi sem hann vann með hjá Napoli. Gylfi hefur annað hvort spilað dýpra á vellinum á miðjunni eftir komu Ancelotti til félagsins, eða úti á vængnum. Hjá Marco Silva, sem var stjóri Everton áður en Ancelotti tók við í desember síðastliðnum, þá spilaði Gylfi yfirleitt í holunni í 4-2-3-1 kerfi.

„Ég vissi ekki hvort hann væri að grínast," sagði Gylfi við heimasíðu Everton um það þegar Ancelotti sagði honum frá nýrri stöðu hans í liðinu. „Það eru margir hlutir sem ég þarf að hugsa um í leikjum sem ég hef aldrei þurft að hugsa um áður; ef við erum að sækja þá verð ég að bíða til baka og vera viss um að við séum vel skipulagðir ef við missum boltann."

„Það sem ég elska að gera er að skora mörk og koma með hlaup inn í teiginn, mæta fyrirgjöfum og vera í stöðum þar sem boltinn getur fallið fyrir þig. Það hefur alltaf verið markmið mitt að sækja og skora mörk."

„Það tók mig nokkra leiki að venjast nýju hlutverki en ég er byrjaður að njóta mín í nýrri stöðu. Ef þetta hefði gerst fyrir fimm eða sex árum síðan þá hefði ég ekki orðið of glaður en með tímanum færðu meiri reynslu og það er góð áskorun að spila í nýrri stöðu þar sem þarf að hugsa um aðra hluti."

Í kerfi Ancelotti þurfa miðjumennirnir að gefa snöggar og hnitmiðaðar sendingar fram völlinn. Gylfi er góður á boltann, en tölfræði sem fréttaritarar The Athletic benda á gefur til kynna að Gylfi hafi gefið fæstar sendingar af miðjumönnum Everton inn á síðasta þriðjung vallarins að meðaltali á hverjum 90 mínútum. Gylfi er með 5,1 sendingu, en Tom Davies, Morgan Schneiderlin, Fabian Delph og Andre Gomes eru allir á undan honum. Hann er líka á eftir Delph og Gomes í færasköpun.

Gylfi missir boltann meira en aðrir miðjumenn, en hann reynir miklu fleiri fyrirgjafir að jafnaði en kollegar sínir. Einnig er komið fram á tölfræðipunkta sem benda til þess að Gylfi standi sig vel í vörn, en skari ekki fram úr.

Andre Gomes er að snúa til baka úr meiðslum og fréttaritarar The Athletic telja að Gomes og Gylfi geti ekki unnið tveir saman á miðjunni. Það þurfi einhvern meira varnarsinnaðan til dæmis til að vinna með Gomes í tveggja manna miðjumannskerfi. Þangað til einhver verði keyptur eða þá að Jean-Philippe Gbamin snúi til baka úr meiðslum þá séu Schneiderlin og Delph bestu möguleikarnir.

Lausnin með Gylfa, sem verður 31 árs á árinu, sé ekki einföld. Það væri líklega best fyrir hann að spila í holunni í 4-2-3-1 kerfi þar sem hans helstu styrkleikar nýtast, en ólíklegt sé að Ancelotti skipti í það kerfi. Gylfi þarf að vera nær markinu. „Að mörgu leyti þýðir það að Gylfi verður fíllinn í herberginu, eins og hann var stundum hjá Silva."

Grein The Athletic má lesa hérna.

Sjá einnig:
Gylfi seldur frá Everton í sumar?


Athugasemdir
banner
banner
banner