Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 18. júlí 2021 19:54
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kolbeinn með stórleik - Jón Dagur fer vel af stað
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Dagur Þorsteinsson.
Jón Dagur Þorsteinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kolbeinn Sigþórsson átti sannkallaðan stórleik þegar Gautaborg vann 3-2 sigur gegn Mjällby í sænsku úrvalsdeildinni.

Kolbeinn hefur verið meiðslafrír á þessu tímabili og er að finna góðan takt með Gautaborg sem eru frábær tíðindi fyrir íslenska landsliðið.

Kolbeinn skoraði og jafnaði metin undir lok fyrri hálfleiks. Staðan var 1-1 í hálfleik. Snemma í seinni hálfleik átti Kolbeinn stoðsendinguna þegar Marcus Berg, sem spilaði með Svíþjóð á EM, kom Gautaborg í 2-1. Mjällby jafnaði metin en Gautaborg fór með 3-2 sigur af hólmi.

Gautaborg hefur núna unnið tvo leiki í röð og er í sjöunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar.

Í sænsku B-deildinni spilaði bakvörðurinn Böðvar Böðvarsson allan tímann er Helsingborg vann 0-4 sigur gegn Västerås. Helsingborg hefur unnið þrjá deildarleiki í röð og er í sjöunda sæti.

Jón Dagur einnig á skotskónum
Kolbeinn var ekki eini Íslendingurinn sem reimaði á sig markaskóna á Norðurlöndunum í kvöld. Jón Dagur Þorsteinsson fer vel af stað í dönsku úrvalsdeildinni á nýju leiktímabili.

Jón Dagur og félagar í AGF fengu meistarana í Bröndby í heimsókn. Jón Dagur var mjög líflegur í byrjun leiks og hann kom AGF yfir þegar tíu mínútur voru liðnar. Undir lok fyrri hálfleiks jafnaði Bröndby en það voru ekki fleiri mörk skoruð í seinni hálfleik og lokatölur því 1-1 - jafntefli.

Þessi leikur var í 1. umferð en það var enginn annar Íslendingur að spila í dönsku úrvalsdeildinni í dag. Jón Dagur var tekinn af velli eftir 72 mínútur.

Brynjólfur, Viðar og Ari byrjuðu í Noregi
Að lokum til Noregs. Brynjólfur Andersen Willumsson var í byrjunarliði Kristiansund sem vann 2-0 sigur á Sandefjord í Íslendingaslag. Viðar Ari Jónsson lék allan leikinn hjá Sandefjord og samkvæmt Soccerway vefsíðunni þá spilaði hann á hægri kantinum.

Brynjólfur spilaði 83 mínútur fyrir Kristiansund, sem er í þriðja sæti deildarinnar. Sandefjord situr í 11. sætinu.

Ari Leifsson hefur verið að koma sterkur inn hjá Stromsgödset og hann spilaði allan leikinn í kvöld er liðið vann 2-1 endurkomusigur á Stabæk. Valdimar Þór Ingimundarson var ónotaður varamaður hjá Stromsgödset, sem er í tíunda sæti.

Rosenborg, sem mætir FH í Sambandsdeildinni á fimmtudag, vann 3-1 útisigur á Tromsö. Hólmar Örn Eyjólfsson var ónotaður varamaður hjá Rosenborg, sem er í fjórða sæti deildarinnar. Sömu sögu er að segja af Adam Erni Arnarsyni. Hann var ónotaður varamaður hjá Tromsö í leiknum, en lið hans situr í 14. sæti.

Þá er Viðar Örn Kjartansson enn frá vegna meiðsla. Hann var ekki með Vålerenga í kvöld í 3-1 tapi gegn Haugesund. Vålerenga er í fimmta sæti en liðið saknar Viðars mikið - það er ljóst.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner