
Það virðist vera komið að því. Hollenski kantmaðurinn Cody Gakpo gæti skipt um félag í janúarglugganum, miðað við nýjustu ummæli Ruud van Nistelrooy.
Van Nistelrooy er þjálfari Gakpo hjá PSV Eindhoven og áttar sig á því að félagið verður að leyfa þessum öfluga framherja að halda á ný mið.
„Það kemur tími þegar þú getur ekki haldið áfram að segja nei," sagði Nistelrooy þegar hann var spurður út í mögulega sölu á Gakpo í janúar.
Gakpo er 23 ára gamall og búinn að skora 13 mörk og leggja upp 17 í 24 leikjum með PSV á tímabilinu.
Hann var valinn í hollenska landsliðshópinn og skoraði mark á leik í riðlakeppni HM. Hann endaði mótið með þrjú mörk í fimm leikjum þar sem Holland tapaði 8-liða úrslitunum í vítaspyrnukeppni gegn Argentínu.
Félög á borð við Manchester United og Arsenal hafa áhuga á Gakpo en Man Utd er talið leiða kapphlaupið. Það voru ýmis félög sem reyndu að fá Gakpo til sín síðasta sumar en PSV neitaði að selja ungstirnið sitt.