Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 20. október 2019 19:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Álasund upp í efstu deild - Samúel Kári á skotskónum
Álasund spilar í efstu deild á næsta tímabili. Aron Elís verður ekki með þeim þar.
Álasund spilar í efstu deild á næsta tímabili. Aron Elís verður ekki með þeim þar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samúel Kári skoraði fyrir Viking.
Samúel Kári skoraði fyrir Viking.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðmundur Þórarinsson.
Guðmundur Þórarinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hjörtur Hermannsson lék í sigri Bröndby.
Hjörtur Hermannsson lék í sigri Bröndby.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Það er komið á hreint að Íslendingalið Álasund mun leika í efstu deild Noregs á næstu leiktíð. Álasund lagði Tromsdalen að velli og tryggði sér sæti í efstu deild um leið.

Torbjørn Agdestein skoraði eina mark leiksins í Tromsö og Álasund þar með komið upp.

Aron Elís Þrándarson og Daníel Leó Grétarsson spiluðu allan leikinn, en Davíð Kristján Ólafsson var allan tímann á bekknum. Hólmbert Aron Friðjónsson var ekki með vegna meiðsla.

Aron Elís hefur gefið það út að hann spili ekki með Álasundi á næsta tímabili.

Tvö efstu liðin fara beint upp úr norsku B-deildinni og er Sandefjord með þriggja stiga forystu á Start fyrir þrjá síðustu leikina. Viðar Ari Jónsson spilaði allan leikinn og Emil Pálsson kom inn á sem varamaður á 70. mínútu þegar Sandefjord vann 3-0 sigur á Notodden.

Á meðan gerði Start markalaust jafntefli gegn KFUM á heimavelli. Aron Sigurðarson spilaði allan leikinn og Jóhannes Þór Harðarson er þjálfari Start.

Samúel Kári skoraði í sigri
Þá að norsku úrvalsdeildinni þar sem Samúel Kári Friðjónsson var á skotskónum í sigri Viking á Tromsö. Hann kom Viking á bragðið í leiknum og gerði hann eina mark fyrri hálfleiksins.

Viking komst í 2-0 seint í leiknum áður en Tromsö minnkaði muninn í uppbótartímanum.

Lokatölur 2-1 og er Viking í fimmta sæti með 40 stig þegar fimm umferðir eru eftir.

Arnór Smárason var ekki í leikmannahópi Lilleström sem gerði 1-1 jafntefli gegn Stromsgodset. Lilleström er í 11. sæti, af 16 liðum, með 28 stig.

Norrköping með sigur
Guðmundur Þórarinsson lék allan leikinn fyrir Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni er liðið hafði betur gegn Kalmar á heimavelli sínum.

Andreas Blomqvist gerði eina mark leiksins fyrir Norrköping þegar fimm mínútur voru liðnar af fyrri hálfleiknum.

Norrköping er í fjórða sæti með 53. Toppbaráttan í sænsku úrvalsdeildinni er gríðarlega spennandi og eru fjögur efstu liðin, AIK, Hammarby, Malmö og Djurgården með jafnmörg stig þegar tvær umferðir eru eftir. Djurgården á þó leik inni og getur eignað sér toppsætið fyrir siðustu tvo leikina.

Í sænsku B-deildinni komst Brage upp í þriðja sætið með 3-1 sigri á Jönköpings Södra. Bjarni Mark Antonsson lék ekki með Brage í dag.

Tvö efstu liðin í B-deildinni fara beint upp í úrvalseildina og fer liðið í þriðja sæti í umspil.

Hjörtur í sigurliði - Jón Dagur og Eggert í tapliðum
Að lokum til Danmerkur. Hjörtur Hermannsson spilaði allan leikinn í þriggja manna varnarlínu Bröndby í þægilegum sigri gegn Lyngby á útivelli.

Bröndby vann 3-0 og skoraði Pólverjinn Kamil Wilczek tvisvar. Bröndby er í þriðja sæti með 22 stig, sjö stigum á eftir toppliði Midtjylland sem á leik til góða. Mikael Anderson er leikmaður Midtjylland, sem er einu stigi á undan FC Kaupmannahöfn.

Frederik Schram er varamarkvörður Lyngby og var hann á bekknum gegn Bröndby.

Jón Dagur Þorsteinsson kom inn á sem varamaður á 83. mínútu er AGF tapaði 4-3 á heimavelli gegn Silkeborg. AGF er í fimmta sætinu með 20 stig.

Eggert Gunnþór Jónsson kom inn á sem varamaður á 55. mínútu þegar SönderjyskE tapaði 1-4 gegn Nordsjælland. SönderjyskE er í níunda sæti með 18 stig.

Þá spilaði Kjartan Henry Finnbogason með Vejle í 3-0 sigri á Kolding IF í gær. Leikurinn endaði 3-0 og var Kjartan Henry, markahæsti leikmaður B-deildarinnar, ekki á meðal markaskorara. Vejle er á toppi deildarinnar með 27 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner