
Þann 1. janúar getur Lionel Messi byrjað að ræða við félög utan Frakklands.
Messi hefur leikið með Paris Saint-Germain frá því í fyrra en samningur hans rennur út næsta sumar.
Messi var að vinna HM með Argentínu en næst á dagskrá hjá honum er að ræða við PSG um nýjan samning. Franska félagið vill framlengja við hann, og það hratt.
Nasser Al-Khelaifi, forseti PSG, var viðstaddur þegar Argentína vann Frakkland í úrslitaleik HM síðasta sunnudag. Eftir leikinn boðaði hann Messi á fund til að ræða nýjan samning.
PSG vonast til þess að Messi verði allavega í frönsku höfuðborginni til 2024. Félagið stefnir á að ganga frá nýjum samningi fyrir áramót.
Athugasemdir