Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   lau 22. maí 2021 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mun Ísland horfa til Danmerkur? - Tvískipta deildin mjög spennandi
Hjörtur Hermannsson og félagar eru á toppnum fyrir lokaumferðina.
Hjörtur Hermannsson og félagar eru á toppnum fyrir lokaumferðina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik í Pepsi Max-deild karla.
Úr leik í Pepsi Max-deild karla.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Danska úrvalsdeildin er að spilast mjög skemmtilega og það er gríðarleg spenna fyrir lokaumferð deildarinnar sem verður spiluð á mánudaginn.

Deildin virkar þannig að henni er skipt til helminga eftir 22 leiki. Það eru tólf lið í deildinni og eftir 22 leiki er deildinni skipt í sex og sex liða deildir þar sem efstu sex lið mætast innbyrðis og neðri sex liðin mætast innbyrðis.

Deildin hefur spilast þannig að það er gríðarleg spenna fyrir lokaumferðina í báðum helmingum. Í efri helmingnum eiga þrjú lið möguleika á titlinum fyrir lokaumferðina. Bröndby er á toppnum með 58 stig, svo kemur Midtjylland með 57 stig og FC Kaupmannahöfn með 55 stig.

Bröndby á heimaleik við Nordsjælland í lokaumferðinni, Midtjylland á heimaleik við AGF og FCK heimsækir Randers.

Liðið sem endar efst verður meistari og fer í forkeppni Meistaradeildarinnar. Liðið sem endar í öðru sæti fer einnig í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Það lið sem endar í þriðja sæti fer í forkeppni nýju Sambandsdeildar UEFA sem verður sett á laggirnar fyrir næsta tímabil. Liðið sem endar í fjórða sæti keppir svo við liðið sem endar í efsta sæti í neðri helmingnum um síðasta Evrópusætið, sæti í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Randers, sem er í sjötta sæti, vann bikarinn og fer í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Það er einnig spenna í neðri helmingnum þar sem það munar einu stigi á SönderjyskE og AaB, efstu tveimur liðunum, fyrir lokaumferðina. SönderjyskE og AaB mætast í lokaumferðinni.

Pepsi Max-deildin í svona breytingar?
Danska úrvalsdeildin breytti fyrirkomulagi sínu 2016/17 til að gera deildina enn meira spennandi og auka möguleika danskra félaga í Evrópukeppnum með fleiri góðum leikjum heima fyrir.

Í Pepsi Max-deildinni þarf að gera breytingar. Starfshópur á vegum KSÍ kastaði fram tillögu á síðasta ársþingi með hugmyndum um tvískipta deild. Tillögunni var hafnað en í kjölfarið sendu öll félög efstu deildar frá sér yfirlýsingu þar sem þau lýstu yfir stuðningi við tillögu starfshópsins.

Það þarf að gera einhverjar breytingar á deildinni hér heima þar sem Pepsi Max-deildin er talin ein sú versta í Evrópu þessa stundina eftir skelfilegan árangur liða í Evrópukeppnum undanfarin ár.
Athugasemdir
banner
banner
banner