Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 23. mars 2019 12:09
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fyrsti sigurinn frá því flugeldarnir fóru á loft í Laugardalnum
Icelandair
Byrjunarlið Íslands í gær.
Byrjunarlið Íslands í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland vann Kosóvó og tryggði sig á HM.
Ísland vann Kosóvó og tryggði sig á HM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland byrjar undankeppni EM 2020 vel; á sigri. Ísland vann 2-0 gegn Andorra á útivelli í gær. Skyldusigur en samt sem áður erfitt verkefni. Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður, orðaði það vel eftir sigurinn í gær.

„Þetta er skyldusigur en það er ekkert auðvelt í þessum fótbolta. Það sást í þessum leik, þó svo að við höfum verið miklu betri þá skorum við bara tvö mörk. Það er alveg hægt að misstíga sig hérna," sagði Hannes.

Þetta var mjög kærkominn sigur fyrir íslenska karlalandsliðið. Þetta var fyrsti sigurinn í alvöru fótboltaleik síðan í október 2017. Þá vann Ísland 2-0 gegn Kosóvó á Laugardalsvelli. Eftirminnilegt var þegar flugeldar fóru á loft eftir leikinn, en Ísland hafði tryggt sig á Heimsmeistaramótið í Rússlandi með þessum sigri.

Ísland vann Indónesíu tvisvar í janúar 2018 en þeir leikir voru ekki á alþjóðlegum leikdögum.

Frá því Ísland vann Indónesíu í byrjun árs 2018 hafði liðið í heildina spilað 15 leiki, gert sex jafntefli og tapað níu, þegar sigurinn kom loksins í gær. Þrír af þessum leikjum voru á HM, fjórir í Þjóðadeildinni og hinir átta voru vináttulandsleikir.

Ísland vann 2-0 gegn Kosóvó 9. október 2017 og Andorra 2-0 í gær, þann 22. mars 2019. Á milli þessara sigra liðu 529 dagar. Vonandi verður biðin ekki eins löng eftir næsta sigri.

Sigurinn í gær var líka fyrsti sigur Erik Hamren og Freys Alexanderssonar.

Sjá einnig:
Hamren eftir sinn fyrsta sigur: Mjög, mjög ánægður

Þrjár breytingar
Það er athyglisvert líka að skoða byrjunarliðið í leiknum gegn Kosóvó og byrjunarliðið í gær. Þrjár breytingar voru á byrjunarliðinu frá leiknum í gær og leiknum gegn Kosóvó.

Emil Hallfreðsson, Hörður Björgvin Magnússon og Jón Daði Böðvarsson byrjuðu gegn Kosóvó. Í gær var Hörður á bekknum en hinir tveir ekki í hópnum vegna meiðsla.

Í þeirra stað byrjuðu Alfreð Finnbogason, Ari Freyr Skúlason og hinn efnilegi Arnór Sigurðsson í Andorra í gær.

Næsti leikur er gegn Frakklandi á mánudag og er hann einnig í undankeppni EM. Frakkland er ríkjandi Heimsmeistari.
Athugasemdir
banner
banner
banner