Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mið 23. september 2020 14:30
Magnús Már Einarsson
Grótta harmar ummæli stuðningsmanns - Búið að biðjast afsökunar
Frá Vivaldi-vellinum, heimavelli Gróttu.
Frá Vivaldi-vellinum, heimavelli Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Grótta hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem félagið harmar ummæli sem stuðningsmaður lét falla í beinni útsendingu frá leik Gróttu og Keflavíkur í Lengjudeild kvenna í síðustu viku.

Sjá einnig:
Tökumaður GróttuTV ærðist: ERTU MORAN?

Umræddur stuðningsmaður var að hjálpa til við beina útsendingu frá leiknum og hann lét dómarana heyra það þegar Keflavík skoraði mark.

Stuðningsmaðurinn vildi sjá dæmda rangstöðu en á myndum sést að markið er löglegt.

Grótta harmar ummælin en stuðningsmaðurinn hefur einnig beðið dómara leiksins afsökunar.

Af Facebook síðu Gróttu
Síðastliðinn föstudag fór fram leikur Gróttu gegn Keflavík í mfl. kvenna og var hann sýndur beint hér á Grótta Knattspyrna. Einn þeirra stuðningsmanna sem veitti tæknilega aðstoð lét ummæli falla í garð dómara leiksins, sem voru engan veginn til fyrirmyndar.

Knattspyrnudeild Gróttu harmar ummælin og biður alla hlutaðeigandi afsökunar á atvikinu. Sérstaklega eru góðir dómarar leiksins beðnir velvirðingar á atvikinu. Háttsemi sem þessi er úr öllum takti við það sem félagið vill standa fyrir. Gildir einu við hvaða aðstæður ummælin eru látin falla eða til hverra þau ná. Þau eru í andstöðu við siðareglur Íþróttafélagsins Gróttu og stefnu knattspyrnudeildar. Þá gefa þau heldur ekki rétta mynd af stuðningsfólki Gróttu eða þeim sem koma fram fyrir hönd félagsins, sem eru almennt til fyrirmyndar innan vallar sem utan.

Rétt er að fram komi að viðkomandi einstaklingur harmar atvikið sömuleiðis og hefur beðið dómara leiksins persónulega afsökunar. Forsvarsmenn Gróttu hafa jafnframt haft samband við dómarann, forsvarsmenn Keflavíkur og framkvæmdastjóra KSÍ og beðist velvirðingar.

Knattspyrnudeild Gróttu vill af þessu tilefni árétta að knattspyrnan á að vera uppbyggileg, sameiningarafl og gleðigjafi. Því ber okkur í hvívetna að umgangast hvert annað af virðingu. Þá ber okkur jafnframt að kosta kapps við að veita dómurum vernd, enda sinna þeir mikilvægu en oft vanþakklátu starfi fyrir knattspyrnuhreyfinguna. Verður þess sérstaklega gætt að slíkt atvik eigi sér ekki stað aftur á vegum félagsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner